laugardagur, september 09, 2006

Helgin sem var

Það var tekið aðeins á því um helgina. Fjörið byrjaði fljótlega eftir vinna á föstudeginum en þá var tekin stefnan í Reykjanesbæ með vinnunni í smávegis gleðiferð. Byrjuðum í Go-kart kappakstri en það er eitthvað sem ég hafði ekki prófað að neinu viti. Minnir samt að einhverntíman hafi ég farið í eitthvað svona niðri í Skeifu, það hljóta að vera einhver 15 ár síðan eða eitthvað álíka. Þetta var bara þrælgaman, get ekki sagt að ég hafi verið sérstaklega öflugur en maður var nú líka smátíma að komast inn í þetta og maður var orðinn töluvert frambærilegri síðari hlutann. Að því loknu fórum við og fengum okkur í gogginn á Kaffi Duus, fínn staður þar sem maður fékk vel útilátið á diskana. Þá var stefnan tekin aftur í borgina og maður fór út fyrir utan Players í Kópavogi. Veit ekki hvort það er aldurinn eða léleg ástundun á svona staði en þá fannst mér ég vera kominn einhver ár aftur í tímann, hangandi í biðröð fyrir utan skemmtistað innan um lið í misjöfn ástandi. Hvað um það, Sálin var að spila og staðurinn troðinn eftir því. Ég endist nú ekkert sérstaklega lengi, en nógu lengi.

Skellti mér á ÍR-völlinn á laugardeginum með drengina, lokaleikur tímabilsins á móti Selfossi. 2:0 sigur heimaliðsins í leiðindarveðri. Ísak Máni var búinn að bíta það í sig að fara strax eftir leikinn á úrslitaleikinn í bikarnum í kvennaboltanum, Valur - Breiðablik. Veit ekki alveg af hverju hann var svona æstur í það, ekki var ég neitt sérstaklega áhugasamur. Var eiginlega áhugasamari um að komast heim og fá eitthvað heitt í kroppinn. Ég fékk því mömmu hans með mér í lið og eftir stuttar samningaviðræður þá sættist hann á að vera bara heima. Enda var bara betra held ég að horfa á leikinn í kassanum, að því undanskyldu að RÚV gerði í buxurnar og smellti fréttum á þegar vítaspyrnukeppnin var að fara af stað. Ísak Máni var ekki sáttur enda elskar hann vítaspyrnukeppnir og mamma hans var ekki minna æstari í sófanum, skutlaði sér á símann og hringdi með það sama upp í sjónvarp, ein af 300 samkvæmt Fréttablaðinu. Ég get ekki annað en sett þetta í samhengi við úrslitaleik í karlaboltanum, hefði þetta gerst ef þeir hefðu verið að sýna karlana? Ekki sjéns! En Valur vann.

Lokaleikurinn í utandeildinni í gær hjá okkur á móti FC Dragon. Best að hafa sem fæst orð um hann, fór 5:5 og eins og staðan lítur út erum við einu marki frá því að hafa komist í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Bara sorglegt...

Engin ummæli: