föstudagur, mars 23, 2007

Í ljósaskiptunum

Var eins og svo oft í umferðinni í dag og var að hlusta á útvarpið. Þar glumdi auglýsing með vini mínum honum Lýð Oddsyni, lottóvinningshafa með meiru þar sem hann var að bauna eitthvað á konuna sína, eins og svo oft. Þá fór ég allt í einu að hugsa um af hverju þeir aðilar sem eru að keyra þessa markaðsherferð hafa ekki farið út í það að gera auglýsingar þar sem þessi ágæta kona yrði í aðalhlutverki. Fannst þetta sniðug hugmynd hjá mér og fór að velta því fyrir mér hvernig hún ætti að líta út o.þ.h. Þessi pæling fjaraði síðan bara út án þess að ég kæmist að einhverri niðurstöðu.

Við fjölskyldan fórum síðar í kvöld í matarboð til Haraldar og Kristínar og vorum þar samankomin ásamt fleira fólki. Það var kveikt á sjónvarpinu, einhverjir voru að spjalla saman, krakkarnir að leika sér með dót á gólfinu og píanóglamur var líka í loftinu. Allt í einu þar sem ég stóð þarna á stofugólfinu sá ég auglýsingu í sjónvarpinu sem ég hafði ekki séð áður. Vegna þess hve hljóðið í imbakassanum var lágt stillt og önnur umhverfishljóð í stofunni voru yfirgnæfandi gat ég ekki heyrt hvað kom fram í þessari auglýsingu en ég gat ekki skilið annað en þarna væri komin sjálf Björg, eiginkona Lýðs, í lottóauglýsingu. Óbærilegur kjánahrollur fór um mig og mér fannst eins og ég væri staddur í lélegum Twilight zone þætti. Nánast eins og einhver dökk máttarvöld væru að gera grín að mér. Ég leit í kringum mig og allir aðrir í stofunni létu eins og allt væri með felldu. Auglýsingin hvarf eins fljótt og hún birtist og ég stóð enn frosinn á gólfinu. Ég var ekki viss hvort þetta hefði í alvöru gerst eða ekki. Þetta var allt svo óraunverulegt. Gekk að næsta stól og fékk mér sæti. Lét eins og allt væri eðlilegt.

Ég verð að vakta imbakassann til að sjá hvort ég sjái ekki auglýsingu með Björg í aðalhlutverki. Spurning hvort ég sé sá eini sem sé hana...

2 ummæli:

Unknown sagði...

Eru mennirnir í hvítusloppunum á leiðinni??

Nafnlaus sagði...

Þetta getur alveg hafa verið auglýsing um hana Björgu, ég allavega veit að það var verið að gera auglýsingu þar sem hún loksins kemur fram.
Kveðja, Inga