þriðjudagur, júlí 03, 2007

Samskipti í tungumálalegu ljósi

Því hefur oft verið haldið fram að eitt af því sem geri mannskepnuna æðri öðrum dýrum, eða hafi a.m.k. fleytt henni lengra á þróunarbrautinni, sé tungumálið. Þessi hæfileiki að geta tjáð sig við aðra af sama stofni er augljóslega sterkt afl í almennum samskiptum, við getum tjáð skoðanir okkar og tilfinningar við aðra og sömuleiðis fengið að vita annarra skoðanir og tilfinningar.

Ég fór bara aðeins að pæla í þessu um daginn þegar fjölskyldan var upp á Akranesi um daginn og Logi Snær var eitthvað að skoppast í kringum tvær sænskar skottur (eru víst samkvæmt mínum útreikningum 50% sænskar og 50% íslenskar) sem eru líklega árinu eldri en hann. Hann vitaskuld talar bara íslensku en þær voru bara í sænskunni að mér heyrðist. Börn eru mjög skemmtileg hvað þetta varðar því þau eru svo hrein og bein og laus við mikið af þeim hömlum sem færist yfir okkur með aldrinum. Ég hafði því talsvert gaman af því að fylgjast með þeim úr fjarlægð, Logi Snær lét dæluna ganga allan tímann og var óþreytandi að reyna að stjórna leiknum. Ég gerði mér reyndar ekki alveg grein fyrir því hvort hann gerði sér grein fyrir því að þær skildu hann ekki, eða a.m.k. illa. Þær voru reyndar fámálli en hann og héldu sig meira til baka en fannst hann samt nokkuð spennandi, það spennandi að þær voru staðráðnar í að láta tungumálaörðuleika ekki stöðva sig.



Maður veit líka af fólki, samanber Varða fósturpabba, sem hafa ferðast talsvert um heiminn á íslenskunni einni saman en komist ótrúlega áfram á handarpati, yes-no-ok og brosað á réttum stöðum. Ég er ekki að segja að tungumálið sé ofmetið en líklega erum öll nógu lík til að geta farið í boltaleik í stofunni án þess að orða sé þörf.

Engin ummæli: