mánudagur, júlí 09, 2007

Afturhvörf

Á sl. tveimur sólarhringum hef ég endurnýjað kynni við nokkra hluti, sumir reyndar héldustu í hendur hvor við annan.

Ég hitti gamlan skólafélaga frá Laugarvatni í gær, hafði reyndar rekist á hann 2-3 sinnum nýverið á samkomum tengdar ÍR en hann er starfandi formaður knattspyrnudeildar félagsins ásamt því reyndar að vera framkvæmdarstjóri flugfélags hér á landi. Hvað um það, í samtali okkar kom í ljós að hann hefur viðhaldið ákveðnum samskiptum við hluta af gömlu skólafélögunum. Það er alveg á hinn veginn farið hjá mér, get með réttu sagt að hafa misst allt samband við gömlu félagana frá Laugarvatni af einhverjum ástæðum. Hluti af samskiptum félaga míns við þessa fyrrum skólafélaga er að spila reglulega fótbolta með þeim og svo vildi til að þeir áttu akkúrat að hittast síðar þetta kvöld. Hann spurði mig hvort ég væri ekki tilbúinn að mæta með í þetta skipti og fyrir forvitnis sakir lét ég slag standa. Sparkvöllur í Garðabæ var viðkomustaðurinn og voru nokkur kunnugleg andlit á svæðinu en það hittist þannig á að Old Boys hópur frá Stjörnunni var á svæðinu og skoraði okkur á hólm. Ég var sem sagt kominn út í stærra dæmi en ég ætlaði mér, völlurinn stærri en ég hafði ætlað mér o.s.frv. Annað sem ég dustaði svo rykið af var það að spila sem útispilari. Fór mikinn á vinstri kantinum þótt ég segi sjálfur frá og eftir að hafa m.a. sett tuðruna sláinn-inn með hægri þá var ekki aftur snúið með egóið. Hugsaði með mér að þetta væri helv... fínt að spila svona út og kannski ætti ég að hugsa minn gang með ferilinn, hæfileikum mínum væri kannski hreinlega sóað í markinu. Fljótlega var mér þó kippt niður á jörðina þegar þolið var búið, þá var þetta hætt að verða gaman. Lítið gaman að láta "gamla" karla taka sig í bakaríið þegar þolið var búið.

Svo fór ég í Melabúðina í dag, gömlu hverfisbúðarinnar úr æskunni. Var þarna inni um kvöldmatarleytið og þetta var væntalega eins og að vera í síldartunnu. Varla hægt að komast fram né aftur, allt vitlaust að gera í kjötborðinu og opið á þremur afgreiðslukössum. Þetta var afturhvarf sem bragð var af.

Engin ummæli: