laugardagur, október 06, 2007

Laugardagur í Frostaskjóli

Ísak Máni tók þá ákvörðun núna með haustinu að leggja handboltaskónum á hilluna en prófa þess í stað körfuboltann. Byrjaði í september og er ákveðinn í að halda áfram í vetur. Besta mál í sjálfu sér, hann verður jú sjálfur að finna út sín áhugasvið í þessum efnum og ég er bara ánægður meðan hann hefur áhuga á að vera í einhverju sporti þótt mér persónulega finnist skemmtilegast að tuðrusparkinu. Drengurinn verður því í fót- og körfubolta í vetur. Mér finnst fínt að sjá hann í körfunni, mikið til vegna þess að ÍR er aðeins að spýta í lófana með unglingastarfið í körfunni og réðu til sín serbneskan þjálfara, Bojan Desnica, til að sjá um þau mál. Hann er búinn að þjálfa hér á landi í nokkur ár, m.a. hjá KR og Breiðablik og það sem ég hef séð af honum (sem er reyndar ekki mjög mikið) líst mér mjög vel á, alvöru þjálfari þar á ferð.



Það var sem sagt körfuboltamót hjá Ísak í dag, hið fyrsta á ferlinum og er ekki alveg eins gott að hefja leik í KR-heimilinu. Svolítið skrítið því þessir strákar æfa ekki allir saman nema einu sinni í viku, annars er Bojan með séræfingar í hverjum skóla í hverfinu. Og þar sem Ísak Máni hafði ekki enn komist á sameiginlega æfingu þá þekkti hann ekki alla strákana sem voru með honum í liði. Gekk svona þokkalega hjá liðinu, greinilega samt að hin liðin voru komin betur á veg með grunnþætti í íþróttinni. Mínum gekk allt í lagi, pabbanum fannst hann fá boltann alltof lítið en það er kannski ekkert skrítið þegar margir í liðinu vissu ekki einu sinni hvað hann hét. Náði tveimur skotum sem hvorugt rataði ofan í en hljóp alltaf samviskusamlega í vörn og sókn og sendi boltann venjulega bara yfirvegað á næsta mann. Hann var alla vega heilt yfir mjög sáttur með þetta og það er nú fyrir öllu.



Þar sem konan á heimilinu er í lambakjötsleiðangri vestur í sveitum fékk Logi Snær að vera hjá Guðrúnu frænku enda leist mér ekkert á að hafa hann þarna ráfandi frá klukkan 9:00 - 14:00, með allri bið á milli leikja og öðru hangsi.

Til upplýsingar var matseðill kvöldsins hjá okkur strákunum eftirfarandi:

Forréttur: Æði-bitar.
Aðalréttur: Upphituð Dominospizza frá því í gær.
Eftirréttur: Mjúkís með súkkulaðibragði, ásamt súkkulaðisósu og ískexi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var bara grænmeti og brauð í matinn hjá mér, ekki eins spennandi og hjá ykkur.
En gott að Ísaki lýkar þetta vel, og er til í að prófa annað en fótbolta.