sunnudagur, september 30, 2007

Uppgjör knattspyrnusumarsins 2007

Vatnsberar - Utandeildin

Utandeildinni lauk í síðustu viku, þ.e. riðlakeppninni. Sumarið endaði ekki nógu vel fyrir okkur, tap í siðasta leik þýddi 7. sæti í riðlinum (af 11 liðum) á meðan jafntefli eða sigur hefði dugað okkur í 5. sæti. Meira moð en í fyrra þar sem við vorum einu marki frá því að komast í úrslitakeppnina en reyndar vorum við í sterkari riðli í ár. Þokkalega sáttur við mína frammistöðu en var reyndar nánast á annarri löppinni í síðustu leikjum sumarsins sökum ökklameiðsla sem sér ekki fyrir endanum á. Spurning hvernig næsta sumar verður, ljóst er að formaður klúbbsins er að flytjast búferlum í sveitina og því staða formannsins líklega á lausu. Stefnan er að sett á að bögglast í þessu a.m.k. eitt ár í viðbót, enda karlinn kominn á þann aldur að líklega er best að taka bara eitt ár í einu.


ÍR - 2.deild

ÍR-ingar höfðu sett stefnuna á að komast upp um deild enda gáfu 3 efstu sætin í 2. deildinni sæti í 1. deildinni að ári sökum fjölgunar í úrvalsdeildinni. Leit vel út lengi sumars en ljóst var að baráttan um þessi þrjú sæti stæði á milli Hauka, Selfoss, KS/Leifturs og ÍR. 5 jafntefli í síðustu 5 leikjunum var dýrkeypt þegar upp var staðið, í fjórum þessara leikja voru þeir með 1 og 2ja marka forystu þegar skammt var eftir af leikjunum en tókst trekk í trekk að glopra leikjunum niður í jafntefli. 4. sætið í deildinni staðreynd og klárt mál að það verður erfiðara að komast upp á næsta ári, þar sem bara tvo liði fara upp og nú verða 12 lið í deildinni en ekki 10. Það verður athyglisvert að sjá hvern þeir fá til að þjálfa liðið fyrir næsta sumar og hvort hópurinn verður eitthvað styrktur, stefnan hlýtur að vera sett á 1. deildina.

Liðin sem verða í 2. deildinni á næsta ári eru:

Reynir Sandgerði
ÍR Reykjavík
Afturelding Mosfellsbær
Höttur Egilsstaðir
Völsungur Húsavík
ÍH Hafnarfjörður
Magni Grenivík
Grótta Reykjavík
Víðir Garði
Hamar Hveragerði
Hvöt Blönduós
Tindastóll Sauðárkrókur


Valur - Úrvalsdeild

20 ára bið eftir meistaratitlinum lauk loksins í gær. Get ekki sagt að maður hafi verið fyrirmyndarstuðningsmaður þetta árið, fór bara á einn leik í sumar, lokaleikinn á móti HK þar sem þeir tryggðu sér titilinn. Hlutirnir þróast þannig að hverfisklúbburinn togar æ meira í, sem er kannski ósköp eðlilegt þegar maður er orðinn talsvert tengdari inn í innvið hans á meðan maður er svolítið eins og krækiber í helvíti á Valsleikjunum, þekkir ekki hræðu þar. Taugarnar samt sterkar á Hlíðarenda, það verður alltaf þannig. Það verður gaman að fara á nýja völlinn á Hlíðarenda næsta sumar, þetta tveggja ára dæmi á Laugardalsvellinum er ekki búið að vera nógu sniðugt og aldrei að vita nema maður fari á fleiri en einn leik næsta sumar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

vá maður ég byrjaði að lesa fyrstu orðin þegar ég áttaði mig á því um hvað þetta væri.. jemindúddamía fjúff þar skall hurð nærri hælum

Nafnlaus sagði...

Jóhanna. Þú veist að hin óskrifaða regla bloggheima er sú að þú mátt ekki kommenta nema að hafa lesið allan pistilinn, ég vona að þú hafir þetta í heiðri þegar næsti fótboltapistill birtist hér hehehe