föstudagur, febrúar 13, 2009

Föstudagur í vinnunni

Einn samstarfsmaður minn tók upp á því að safna hormottu, a.k.a. yfirvaraskeggi, svona í einhverju flippi. Tók þetta alla leið og lét annan samstarfsmann minn setja lit í djásnið svona til að skerpa á hlutunum. Eitthvað virðist þetta hafa kveikt í leyndum löngunum hjá sumum öðrum karlkyns starfsmönnum fyrirtækisins og á örskotsstundu leiddi múgæsingurinn til þess að allir voru látnir svara spurningunni hvort þeir væru menn eða mús. Væru menn reiðubúnir til að mæta með hormottu á árshátið samsteypunnar þann 7. mars næstkomandi? Gekk það svo langt að einhverjir betri helmingar fengu hringingu frá upphafsmönnunum þar sem fengið var samþykki fyrir þátttöku eiginmannanna. Voru það betri helmingar þeirra sem sáu fyrir sér að þurfa að sofa í sófanum heima hjá sér ef hárvöxtur á efri vörinni fengi að vera þar óáreittur.

Mér finnst leiðinlegt að raka mig og oft er reytingurinn í andlitinu orðinn frekar villtur áður en ég tek mig til og geri eitthvað í málunum. Þetta hefur líka verið frekar einfalt, það er bara allt tekið af og ég hef því ekki tileinkað mér neina tækni hvað skeggsnyrtingu varðar. Mér heyrist menn ætla að fara mildu leiðina að þessu takmarki, þ.e. safna einhverri annarri útfærslu en eingöngu mottunni en taka síðan allt af nema hana fyrir árshátíðina.

Ég er nú oft tilkippulegur í allskonar vitleysu en það eru svona tvær ástæður fyrir því að ég var nú ekkert hoppandi spenntur. Annars vegar er ég að byrja í skólanum í næstu viku og ég er ekki æðislega spenntur fyrir að leggja mig fram að kynnast nýju fólki með flekkóttan hýjung í andlitinu. Sömuleiðis sé ég ekki stemminguna ef nýjasti fjölskyldumeðlimurinn do-be kæmi nú í fyrra fallinu og fyrstu myndirnar af mér og gríslingnum yrðu hýjungsmyndir, tala nú ekki um hormottumyndir. Nei takk.

Ég þarf eitthvað að sofa á þessu. Það er ekki öll vitleysan eins.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki vitlaus hugmynd, ég væri alveg til í að sjá þig með yfirvaraskegg, held að ég gæti örugglega hlegið, hehehe
Kv, Inga

Nafnlaus sagði...

Frábær hugmynd, svo getur þú skellt mynd af þér hingað inn vikulega svo við hin í langíburtuskan getum fylgst með og dæmt skeggvöxtinn, I´m game og örugglega hinir í fjölskyldu og tengdafjölskyldu :-D

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki alveg með mig, hvort ég er tilbúin í þetta hmmm.
Sigga

Nafnlaus sagði...

Láttu ekki svona. Auðvitað skilurðu eftir fagra mottu næst þegar þú rakar þig. Ekkert rugl. Nafni minn Selleck er nú með svalari mönnum.