Mér telst svo til að þetta hafi verið tæpur mánuður sem maður rakaði sig ekki. Ekki svona á hefðbundinn máta það er. Maður gat nú ekki beilað á þessari mottuvitleysu í vinnunni eins og ég fjallaði um hérna á þessum miðli ekki alls fyrir löngu. Ekki gat maður hins vegar látið sjá sig með hormottuhýjung í nokkrar vikur eins og trefill og ég tók því þann pólinn á þetta að láta þetta bara vaxa svona heilt yfir. Eins heilt yfir og hægt var en vitaskuld snyrti ég þetta aðeins til, svæðið yfir kinnarnar t.d. er frekar eyðimerkurlegt svona frá náttúrunnar hendi. Svona er ég sem sagt búinn að vera síðustu vikur:
Þetta vandist nú þokkalega en reyndar var ég orðinn frekar þeyttur undir lokin á þessu, klæjaði oft og iðulega í þetta ásamt því að þetta var bara vesen að halda þessu þokkalega snyrtilegu. Þetta fékk sem sagt að fjúka á laugardaginn enda var árshátið samsteypunnar þann dag. Var reyndar að spá í að græja mottuna á föstudeginum en ákvað að bíða með það, svona ef maður ætlaði að láta sjá sig meðal fólks fyrirpart laugardagsins. Notaði reyndar tækifærið og prófaði nokkrar útfærslur svona í afrakstursferlinu, fyrst maður var á annað borð með andlitið fullt af hárum.
Kleinuhringurinn eða aparassinn skilst mér að þetta sé kallað en þessi útfærsla var frekar vinsæl meðal samstarfsmanna minna í ferlinu. Ég nennti nú ekki alveg að vera eins og allir hinir og tók frekar ákvörðun um að vera eins og á fyrstu myndinni og hefur verið rætt um.
Ég kýs að kalla þessa útfærslu „Günther“ en hérna vantar eingöngu flennistór RayBan gleraugu og leðurhatt með deri, þá væri maður klárlega good-to-go. Þegar hér var komið við sögu var lítið orðið eftir annað en að græja þessa blessuðu hormottu eins og hún átti að birtast öðrum árshátíðargestum.
Þetta er vitaskuld algjör viðbjóður, eða horbjóður öllu heldur og ég gerði mér full grein fyrir því að þátttaka mín á þessari árshátið yrði ekki falleg. Það var samt ekki annað hægt en að láta sig hafa það, mæta á svæðið og reyna að gera gott úr þessu. Ég þakkaði æðri máttarvöldum fyrir það að hafa ekki græjað þetta kvöldið áður því göngutúrinn á laugardeginum hefði verið hræðilegur svona útlítandi. Ég passaði mig til að mynda á því að ég rækist ekki á einhverja íbúa í stigagangnum á leiðinni út. Á árshátíðinni sjálfri hafði einhver fékk þá flugu í höfuðið að verðlauna fyrir bestu mottuna. Kom það í hlut þess sem þetta ritar að fara upp á svið og taka við verðlaununum. Reyndar hvíslaði formaður dómnefndar þess að mér þegar ég veitti verðlaununum viðtökur að ég hefði nú sennilega ekki verið með fallegasta skeggið (enda sumir þarna sem höfðu tekið þetta alla leið og farið í litun og plokkun) en ég var klárlega perralegastur. Þannig að verðlaunin voru mín.
Eitthvað var verið að ýja að því að sigurvegarinn þyrfti nú að skarta herlegheitunum eitthvað fram í næstu viku en ég hlustaði ekki á svoleiðis. Eftir að ég kom heim og áður en ég skreið upp í rúm fór rakvélin á loft og kláraði verkið. Ég lít svo á að ég hafi hætt á toppnum.
mánudagur, mars 09, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Allhressilega kanalegur... Annars er Guntherinn líklega flottastur. Svona ekta týpa sem mætir einn daginn með AK47 í vinnuna og plaffar alla niður.
Til hamingju með að geta gengið í dagsbirtu á ný.
Til hamingju með verðlaunin, ég er mjög svo stolt af þér....
Hehehehehehehehe góður
Kleinuhringurinn minnti mig óþægilega mikið á Rafa Benitez. Er eitthvað sem þú þarft að segja mér?
Skrifa ummæli