sunnudagur, maí 24, 2009
Daði Steinn Wíum
Þá er loksins komið nafn á nýjasta drenginn, skjalfest í dag með presti og veislu. Ég veit ekki hvort maður verður afslappaðri (lesist: kærulausari) með árunum en þessi þurfti klárlega að bíða lengst eftir nafninu sínu. Mig minnir að það hafi verið búið að nefna Ísak Mána áður en hann kom heim af spítalanum og Loga Snæ fljótlega eftir heimkomuna. Ég var ekkert búinn að spá í nafni á meðan meðgöngunni stóð og eftir að menn komu í heiminn þá liðu dagarnir einn af öðrum án þess að eitthvað væri að gert af fullri alvöru. Snúlli og Litli bróðir voru bara vel brúkleg.
Það var því sterkasti leikurinn að ákveða skírnardag og setja sig þar með undir pressu. Þegar maður horfði á dagatalið og sá að afmælisdagurinn hans Varða var á næsta leyti og sunnudagur í þokkabót þá var þetta bara sjálfkjörið. Núna var þetta að því leytinu frábrugðið frá hinum tveimur að enginn fékk að vita um nafnið fyrir afhöfnina, gaman að prófa það líka. Annað var hefðbundið með veisluna, hinn þriðji sem skírist heima hjá afa og ömmu í Mosó.
Þegar við vorum að leita að nafni fyrir Ísak Mána þá fór maður á bókasafnið og fékk einhverja mannanafnabók. Nú, 10 árum seinna, er hægt að nálgast þetta á netinu. Gaman að velta sér upp úr þessu, maður hefði getað poppað þetta upp allhressilega og farið nýjar leiðir. Lars Ulrich Wíum hefði t.d. verið löglegt, heilmikið rokk í því. Ríó Ferdinand Wíum hefði víst líka gengið gagnvart mannanafnanefnd. Logi Snær var alveg á því að skýra hann Dreki og maður gat nú ekki annað en hugsað um sögurnar um Benedikt búálf, sem hafa verið lesnar talsvert hérna í gegnum tíðina, en þar kemur Daði dreki talsvert við sögu. Furðulegt en hey, ef Ljótur Drengur er boðlegt samkvæmt þessu skriffinskubatteríi, þá hefði víst margt annað verið vitlausara.
Annars brutum við 4 stafir + 4 stafir regluna með þennan. Hann fékk fleiri stafi en Ísak Máni og Logi Snær en ekki annað hægt en að gera eitthvað extra fyrir þennan, ekki á ég sérherbergi handa honum. Það er svona að mæta seint á svæðið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Hjartanlegar hamingjuóskir með nafnið á prinsinum, þetta er fallegt nafn á fallegan dreng..:) Kveðja frá Selfossi.. Sigga W og fjölsk.
Til hamingju með drenginn. Langbesta nafnið af valkostunum sem þú nefndir.
Glæsilegt nafn og til hamingju... Ég ætla samt að kalla hann Tomma litla.
Til hamingju með þessi glæsilegu nöfn á litla gæjann. Davíð, ég óska þér til hamingju með daginn.
kv,
Gulla
Skrifa ummæli