Það er ekki hægt að neita þeirri staðreynd að ég hef fylgst með Júróvisíonkeppninni síðan 1986. Misítarlega reyndar. Held ég geti sagt að „áhuginn“ hafi verið mestur þarna fyrstu árin sem Ísland tók þátt og svo hefur þetta verið frekar misjafnt. Danni Mausari átti einhverja sérútgáfu af ICY flokknum á svona lítilli plötu, árituð í þokkabót og það fannst mér flott, árið 1986. Ég var ekki alveg að setja mig inn í þetta þegar Ísland fékk ekki að taka þátt vegna ónógra stiga áranna á undan eða ekki komist í úrslitakvöldið eins og kerfið hefur verið undir það síðasta. Vill enn meina að Botnleðja hafi klárlega átt að fara þegar við sendum hana sykursætu Birgittu.
Ætli punkturinn með þetta allt saman sé ekki sá að þetta er keppni og Ísland er að taka þátt í henni. Veit ekki annars, voða lítið af þessum froðulögum sem hafa kveikt eitthvað í manni öll þessi ár. Fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi alltaf verið svona rosalega mikil froða og hvort maður myndi nú eitthvað eftir lögum fyrri ára. Fyrir svoleiðis vinnu er gott að hafa netið.
Ég verð að viðurkenna að þessi úttekt er alls ekki vísindalega unnin enda ekki sjéns að ég nenni að kynna mér öll lögin í sögu þessara keppni. En þau tvö lög sem ég vil nefna hérna sem mér finnst standa upp úr, voru bæði ítölsk og unnu hvorugt. Þessi klassíska snilld frá 1958 er mjög töff miðað við allt en endaði bara í 3ja sæti. Ég jútúbaði sigurlagið frá þessu ári og get ekki sagt að ég hafi nokkurn tíma heyrt það áður. Síðara dæmið frá 1987 finnst mér líka töff en því tókst ekki að vinna og meira að segja 3ja sætið líka. OK, áttu í höggi við írska sykurpúðann Johnny Logan og lítið við því að segja. En þegar ég fór að forvitnast hvað lag lenti í öðru sæti þetta ár, fyrir ofan Ítalíu þá minnti það mann á hversu mikill horbjóður þessi lög eru að langmestu leyti. Þýskaland árið 1987, þarf að segja eitthvað meira? Þið verðið að tjékka á þessu, ég veit ekki hvort tekur sig verr út, gítarleikarinn með gula hárbandið og buxur í stíl eða standandi trommuleikarinn með 4-faldan skammt af axlarpúðum. Ég er enn að fá martraðir. Annað sæti, þvílíkt grín.
Jóhanna Guðrún með annað sætið í gær, ekkert nema gott um það að segja. Helv... norsara lagið er búið að gera mig alveg geðveikan, glymur allan daginn á öllum miðlum og ég tók næstum því á það ráð að stinga hausnum ofan í klósettið og sturta niður til að athuga hvort ég losnaði við þetta klístur úr hausnum. Óþolandi að fá óþolandi klístur á heilann. Ég gerði þá uppgötvun í morgun í tengslum við þessa keppni að árið sem frumburðurinn fæddist og árið sem sá nýjasti fæddist urðum við í öðru sæti. Ekkert að marka með árið sem Logi Snær fæddist, ekki hægt að ætlast til að viðbjóðurinn Heaven með Jónsa hefði skilað okkur nokkru meira en 19. sætinu sem það lenti í, óbjóðandi lag með öllu.
sunnudagur, maí 17, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Bíddu... Hvað með Húbba Húlle ??? Það muna nú allir eftir því er það ekki?
það var flottast sko haahahahaa
Takk kærlega Davíð. Nú verð ég með þetta norska Ingjaldsfífl klingjandi í kollinum það sem eftir lifir dags.
Annars varð ég fyrir vonbrigðum með þessa efni þessa pistils. Hingað kom ég til að lesa dúndurdiss um annað annað sæti sem náðist verðskuldað um helgina:)
Nema þetta sé skrifað undir rós? En það er þá of djúpt fyrir einfeldninginn mig, a.m.k. meðan sá norski einokar heilabúið.
Skrifa ummæli