föstudagur, júlí 17, 2009

Dagur í lífi einbúa

Sigga og strákarnir búin að vera í Baulumýri alla vikuna í sól og bongó blíðu meðan minns er að reyna afla björg í bú á þessum síðustu og verstu. Enginn biturleiki samt. Í alvöru.

Tökum dæmi um einn dag bara svona upp á grínið, enda vikan ekki búin að vera alveg hefðbundin hjá 3ja barna fjölskylduföðurnum í Breiðholtinu.

T.d. dagurinn í gær bara svona til að taka eitthvað:

Vaknaði pínu þreyttur enda ekki alltaf að fara nógu snemma að sofa þegar maður er bara svona að dúlla sér á kvöldin. Svindlaði svolítið og skellti í mig hunangsseríósi, sem er samkvæmt lögum heimilisins föstudagsnammi, en það var víst engin til að slá á puttann á kallinum. Henti mér í vinnuna og tók þann pakka fram eftir degi. Á leiðinni heim verslaði maður inn fyrir heimilið, hálfan líter af 7-up, eina Powerade, 1944 (kjötbollur í brúnni) og hálft brauð. Var að fara spila fótbolta um kvöldið og ákvað því að nota tækifærið fyrst maður var einn í kotinu og fá mér kríu þegar ég kom heim, svona eins og atvinnumennirnir gera. Það gekk nú ekkert svakalega vel að sofa, tengdist kannski því að úti var tæp 20 stig og öll börn úti að leika sér. Drattaðist á fætur, skellti mér í sófann og hendi í mig kjötbollunum yfir fréttunum, enn ein reglan sem maður er að brjóta. Kjötbollurnar voru fínar, en fyrr í vikunni hafði verið reynt við hangikjöt með tilheyrandi og kjúklingur með einhverri austurlenskri sósu. Skannaði yfir stofugólfið á meðan japlað var á bollunum og tók þá ákvörun að það þyldi alveg einn enn ryksugulausan dag. Hafði svo áhyggjur af því hversu illa gekk að fylla uppþvottavélina það mikið að hægt væri að réttlæta að setja hana af stað. Græjaði mig fyrir boltann, en þurfti að hirða blöðruna fimm sinnum úr netinu í leiknum og hugsaði til þess hvað hefði gerst ef krían hefði gengið betur. Kom heim og fór alltof seint að sofa.

Já, það er margt að hugsa um þessa dagana...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ef þig vantar afþeyingu þá er bara málið að skella sér norður yfir heiðar og finna sér eitthvað að gera. ýmislegt er í boði s.s málingarvinna, leggja parkert, reita arfa, þrífa, bera húsgögn etc....
Þú lætur bara vita hvenær þú mætir á svæðið