laugardagur, ágúst 22, 2009

V.I.P. meðhöndlun

Ég veit ekki hvort það er að maður á svona mikið af börnum eða hvað en einhvern veginn virðist það vera þessa dagana að það eina merkilega sem gerist er eitthvað í gegnum börnin.

Ísak Máni er hjá sjúkraþjálfara, einu sinni í viku. Ekkert alvarlegt svo sem en Ísak fer til hans til að láta teygja á sínum stuttu vöðvum. Þessi sjúkraþjálfari hefur verið í tengslum við meistaraflokk Fylkis í fótbolta og Ísak Máni hafði notað þessi sambönd sín til að fá íslensku fótboltamyndirnar sem hann er að safna áritaðar, þ.e. myndirnar af Fylkismönnunum. Svo fór það að sjúkraþjálfarinn spurði hvort Ísak vildi ekki koma bara fyrir einhver heimaleikinn og kíkja á þetta, fá restina áritað o.s.frv. Þið getið ímyndað ykkur að drengurinn var alveg að kaupa þessa hugmynd og menn mæltu sér mót í dag, á leik Fylkis og Fjölnis. Ég skilaði drengnum af mér í anddyrinu á Fylkisheimilinu góðum klukkutíma fyrir leik, með bunka af Fylkis- og Fjölnismyndum meðferðis. Þar sem þessi ágæti sjúkraþjálfari ætlaði bara að vera með í undirbúningnum en ekki í leiknum sjálfum þá hafi ég ráðgert að pikka drenginn upp fyrir upphaf leiksins og halda heim á leið, fyrir mér var Fylkir-Fjölnir ekkert rosalega spennandi. Fékk svo upphringingu skömmu fyrir þann tíma þar sem Ísak Máni tilkynnti mér að það vantaði boltastráka á leikinn og honum hefði verið boðin sú staða í leiknum. Ég rúllaði því þarna upp eftir og tók síðasta hálftímann á leiknum og hitti svo drenginn eftir leik, helsáttur með fullan vasa af árituðum Fylkis- og Fjölnismyndum.

Körfuboltanámskeið hjá Val og boltastrákur hjá Fylkir, ÍR-ingurinn fer víða í reynslusöfnun. Sem hlýtur að teljast besta mál.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að þessu.

kv,
Gulla

Nafnlaus sagði...

Verður maður ekki að prófa hin og þessi lið til að vita hvað er best :-)
kv
Inga