föstudagur, desember 25, 2009

Nammivélin í Nettó

Velti því fyrir mér á þessari síðu fyrir nokkrum árum (djö... hljómar þetta kempulega) hvort hinn almenni ungviður sem væri að stunda íþróttir væri frekar að horfa til þeirra efnislegu gæða sem afreksmenn í íþróttum eru oft aðnjótandi, meira heldur en það andlega kikk sem kæmi við það að sigra í kappleikjum eða skara fram úr á sínu sviði.

Logi Snær kom til mín eftir að hafa verið að horfa á þátt í seríunni um Atvinnumennirnir okkar með eldri bróðir sínum og tilkynnti mér að Hermann Hreiðarsson, knattspyrnumaður með meiru, væri sko flottur gaur. Hann ætti risastórt hús með sundlaug út í garði sem væri með rennibraut. Einnig ætti hann marga bíla og svona prik til að nota á grænu borði (snookerborð) og tölvuleikjatæki og nammivél eins og er í Nettó. Ástæðan? Hann fær svona mikla peninga fyrir að spila fótbolta.

Illa hefur gengið að fá Loga til að nýta orku sína í einhverja íþróttatengdar æfingar. Spurning hvort ég gæti notað þetta sem hvatningu?

„Ef þú ferð á æfingar og verður rosalega duglegur að æfa þig þá getur þú mögulega keypt nammivélina í Nettó...“

1 ummæli:

Gaui Halldórs sagði...

hehehe, góður....