fimmtudagur, nóvember 11, 2010

Ljósið í myrkrinu

Við feðgarnir höfum verið nokkuð duglegir að fylgjast með ÍR í körfunni þetta haustið. Maður tók þetta í raun alla leið og er ársmiðahafi nr. 005 í vetur. Árangurinn hefur þó verið frekar dapur þar sem af er, aðeins einn sigur í sex leikjum. Við fórum út á Ásvelli í kvöld og sáum okkar menn etja kappi við Hauka og eftir jafnan leik misstu gestirnir svolítið hausinn og töpuðu með sex stigum.

Á milli 3. og 4. leikhluta leiksins buðu heimamenn hinsvegar upp á skotleik þar sem tveimur körfuboltum var kastað upp í stúkuna, einum Hauka-megin og hinum ÍR-megin. Pallarnir voru nú svo sem ekkert þéttsettnir og með herkjum náði Ísak Máni að góma boltann sem flaug upp í stúkuna til okkar. Skotleikurinn var einfaldur, ein þriggja stiga skottilraun á hvorn, á hefðbundnum fullvaxta körfuknattleiksvelli, og ef hún rataði niður fékk sá hinn sami 5.000 kr inneign í stærstu matvöruverslun Hafnarfjarðar. Stuðningsmaður Haukanna, ungur maður á þrítugsaldri, reið á vaðið en náði ekki að hitta. Ísak Máni steig þá upp og gerði sér lítið fyrir og setti blöðruna niður og uppskar mikið lófaklapp... að mig minnir, ég stökk a.m.k. upp úr sætinu.

Það voru frekar hnipnir ÍR-ingar sem röltu niður af pöllunum eftir leikinn en einn klappaði Ísaki Mána þó á öxlina og sagði: „Jæja, þú ert ljósið í myrkrinu eftir þennan leik.“

Það var smápæling ef þetta hefði nú verið í úrslitakeppninni og skotið hefði gefið flug fyrir tvo til Evrópu eins og var síðasta vetur. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr því, kúl var þetta.

3 ummæli:

Gulla sagði...

Flott hjá stráknum :-)

Tommi sagði...

Snillingur...

Villi sagði...

Þetta minnir á kjötskrokkakeppnina sem var á Valsleikjum í gamla daga. Flott Ísak Máni!