sunnudagur, desember 19, 2010

Mjúkt verður hart með miklum hausverk

Fimm dagar til jóla og það er verið að cut-a niður to-do-listann. Eitthvað er verið að pakka inn og í dag fóru einhverjir pakkar út úr húsi og aðrir komu inn í staðinn. Svo var það þegar ég var að pakka inn að ég fór að svipast eftir einni gjöf handa litlum frænda. Greip í tómt þegar ég ætlaði að nálgast hana á þeim stað sem ég hélt að hún væri á. Klóraði mér í hausnum og fór í nánari rannsóknarvinnu. Eftir að hafa skimað á líklegum stöðum var ég enn tómhentur og ekki alveg farið að standa á sama. Áhyggjurnar jukust svo til muna þegar konan fór að tengja þetta við nokkra-poka-ferð mína á Sorpu um daginn þar sem ýmislegt fékk að fjúka.

Það var því ekki annað hægt en að fara í þetta af fullum þunga, fór í gegnum alla fataskápa og skúffur á heimilinu, allar hillur í útifataskápnum og þvottahúsinu. Eldhúsið og stofan voru grandskoðuð í kjölfarið en árangurinn varð enginn. Stemmingin var, þegar hér var komið við sögu, í sögulegu lágmarki og ég sá fyrir mér einhvern rekast á þennan ónotaða hlut, með skilamiðanum og öllu, á spottprís í Góða hirðinum eða í þessum Rauða kross-búðum.

Þetta var svo sem ekki spurning um tugi þúsunda en það marga þúsundkalla að maður íhugaði af fullri alvöru hver næstu skref yrðu. Átti maður að hringja í Sorpu eins og geðsjúklingur og fá að fara í gegnum eins og tvo gáma af ruslapokum? Líklega væri best að halda einhverjum hluta af sjálfsvirðingunni og sleppa því símtali. Eitthvað skárra væri að fara og kaupa nýja grip. Reyndar keypti ég þetta í verslun þar sem kunningi minn er að vinna. Ég þyrfti þá að gera upp með mér hvort ég kæmi með einhverja góða sögu, hvers vegna ég þyrfti annan svona grip, eða leggði einfaldlega spilin á borðið og viðurkenndi kjánaskap minn. Draumurinn í þeirri útfærslu væri að ég fyndi frumeintakið sama dag og ég verslaði hið síðara og gæti þá bara farið og skipt öðru eintakinu.

Ætli ég hafi ekki verið að byrja á fjórðu yfirferðinni um íbúðina þegar konan kemur til mín, hálfskömmustuleg, með lítinn pappakassa undir höndum. Kom þá í ljós að fyrir einhverjum dögum síðan þegar þessi gjöf, sem ein og sér yrði mjúkur pakki, var að þvælast á borðstofuborðinu fannst frúnni tilvalið að smella henni ofan í tóman pappakassa sem hún þurftir að losa sér við og umbreyta þessari gjöf í leiðinni í harðan pakka. Kassanum stakk hún svo inn í skáp. Útlit hans tókst að blekkja mig svo rosalega að ég álpaðist ekki til að athuga það, þótt ég hafi íhugað það, líklega í annarrri yfirferðinni.

Rosalega var mér létt.

1 ummæli:

Gulla sagði...

Ha ha ha, góð jólasaga :-)