Þið eruð nú meiru pappakassarnir. Þegar ég lít til baka yfir síðustu ár er kannski helst eitt atriði sem þið hafið gert til að gleðja mitt litla, einfalda barnshjarta. Það varð meira að segja efni í pistil hérna um árið, svo glaður var ég. Hálfsorglegur kannski en eins og fyrr segir frekar einfaldur.
Allt í rugli í kerfinu, skuldaafskriftir hægri vinstri hjá gömlu útrásarplebbunum en við hin sem áttum kannski skitinn 200 þúsund kall á einhverjum prumpreikning fengum bara lækkun verðbóta upp í ósmurðan afturendann.
Ég, þessi einfaldi, hélt hinsvegar áfram að brosa enda með ÍR-kortið mitt og fannst það bara æðislegt. A.m.k. þann hluta mánaðarins þegar ég átti eitthvað inná því. Maður fékk svona allskonar komment frá allskonar afgreiðslufólki þegar maður dró gripinn fram, þetta var svolítið gaman bara.
En ekki lengur. Neibb. Fékk eitthvað þurrt, staðlað bréf þar sem mér var tilkynnt að þessi þjónusta væri ekki lengur í boði. Og í kjölfarið fékk ég eitthvað steingelt, hrútleiðinlegt og staðlað kort. Sem ég fékk svo ofan á allt 1000 kr rukkun í heimabankann þegar heim var komið án þess að nokkur minntist á það í ferlinu, framleiðslukostnaður sko. Eru menn ekki í bisness hérna? Þið hefðu örugglega geta selt mér, þessum einfalda, ÍR-kort fyrir eitthvað hærri upphæð.
Takk annars fyrir allt.
laugardagur, desember 11, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Davíð minn það fá nú ekki allir gullkort sko....
Skrifa ummæli