miðvikudagur, október 17, 2012
3ja ára, hálskirtlalaus og á læknadópi
Ég fór með Daða Stein í hálskirtlatöku fyrir tæpri viku, síðasta föstudag. Ég var nokkuð rólegur yfir þessu og þetta gekk þokkalega til að byrja með, fyrir utan að hann var ekki að fíla fötin sem honum voru úthlutuð og lét þá skoðun hávært í ljós. Hann vaknaði fljótlega eftir aðgerðina og var ekkert spes en náði að sofna aftur í ca 2 tíma og var þokkalegur eftir þann lúr. Hann var það þokkalegur, þrátt fyrir að vera alveg glær í framan, að við náðum að stoppa í búð á leiðinni heim og versla okkur íspinna og helstu nauðsynjar. Mér fannst hann alveg ótrúlega sprækur þegar heim var komið, datt meðal annars í einhverjar íþróttaálfaæfingar og ég hugsaði með mér að hann kæmi til með að verða alveg geðveikur á að hanga heima í rúma viku. En síðan hefur þetta nú verið meiri lasleiki en hitt, verkjalyf í bossann með reglulegu millibili hefur reynst lífsnauðsynlegt til að halda honum gangandi og greyið er alveg í móki hérna á köflum. Það var ekki til að rífa stemminguna upp á aðrar hæðir þegar hann vaknaði síðastliðna nótt, skreið upp í til okkar og eftir nokkrar mínútur kom í ljós, þegar ljós voru kveikt að það var farið að blæða talsvert úr honum og allir og allt orðið blóði drifið. Það var gekk nú yfir á skömmu tíma sem betur fer. Það þarf ekkert að koma á óvart að heimilishaldið er frekar mikið úr skorðum og ofan á allt þetta er svona rúmlega að gera í vinnunni hjá vinnandi aðilum hérna á heimilinu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Æ æ æ batakveðjur á litla frænda.
Skrifa ummæli