sunnudagur, september 30, 2012

Helgin

Karlinn í einstæða hlutverkinu þessa helgina, me-me á kantinum hjá kerlu og það verður að segjast að það var þokkalegasta keyrsla þessa helgina.  Byrjaði á því að taka smátíma á föstudagskvöldinu niðri í vinnu og kjósa nýtt fólk í okkar flotta starfsmannafélag, með indverskum mat á boðstólnum. 
Körfuboltaæfing hjá Loga Snæ kl 09:00 á laugardagsmorgninum en ég hafði víst stillt klukkuna á 07:45.  Það reyndist óþarfi þar sem minnsta verkjaraklukkan skreið upp í til mín 06:45 og var eitthvað að spá í lífið og tilveruna.  Eftir körfuboltaæfinguna réðst ég í það verkefni að losa eldhúsofninn úr innréttingunni hjá okkur.  Hann hefur átt það til að vera hálfdularfullur og þegar hann tók upp á því að senda stóran hluta framhliðarinnar beint í gólfið þegar heimilsfaðirinn var að möndla pizzur fyrir einhverjum dögum ákváðum við að segja stopp.  Sú framhlið fór í trilljón parta og eftir ítarlegt sóp og fjórar umferðir með rygsugunni var orðið gangfært aftur í eldhúsinu.  YouTube kom mér í gegnum ofnalosunina án mikilla vandkvæða og ég kláraði málið með því að horfa á eftir honum ofaní gáminn á Sorpu.  Ég vona að við verðum búin að leysa þetta fyrir jól en þessi hluti innréttingarinnar er ekki alveg hefðbundin varðandi hlutföll, eins og við komumst að þegar við versluðum okkur uppþvottavél hérna um árið.  Ég finn lykt af skítamixi allan daginn þar sem eflaust mun ganga illa að finna græju sem passar í gatið.  Það kemur í ljós, kannski efni í nýjan pistill.  Við verðum bara að grilla á meðan.
Ísak Máni á körfuboltaæfingu líka þarna á laugardeginum og við hinir fórum að kaupa í matinn ásamt því að stoppa í Elko svo ég gæti rölt í gegnum ofnadeildina.  Verð að segja að ég stoppaði lengur í flatskjádeildinni...

Ísak og Eldar
Sunnudagurinn hófst á Hausthátíð í Breiðholtskirkju þar sem fermingarbörnin léku rullur.  Fjölskyldustund í kirkjunni og svo var boðið upp á grillaðar pylsur og einhverja leiki og þrautir á eftir.  Ísak Máni var í einhverjum ægilegum búningi ásamt félaga sínum og bauð alla velkomna við innganginn.  Eftir þetta var skotist heim í smástund áður en farið var upp í íþróttahúsið í Seljaskóla, sem heitir víst í dag Hertz-Hellirinn, en þar ætlaði Ísak Máni að taka þátt í Íslandsmótinu í Stinger.  Annað árið í röð sem Körfuknattleiksdeild ÍR og Karfan.is halda þetta mót.  Þeim hefur nú enn ekki tekist að laða að mikið af nafntoguðum fallbyssum en það hefst vonandi.  Ca 30 manns sem tóku þátt og Ísak Máni datt út þegar hópurinn var kominn niður í 8 manns, nokkuð gott hjá guttanum.  Eftir það var brunað heim með Ísak en við hinir þrír vorum að fara í Borgarleikhúsið til að sjá Gulleyjuna.  Það var alveg ágætt og Daði Steinn var þokkalegur í sinni fyrstu leikhúsferð.  Ég hafði smá áhyggjur af því að hann yrði eitthvað smeykur við sjóræningjana en svo var ekki og hann hélt athyglinni allan tíma sem hlýtur að túlkast sem að takmarkinu hafi verið náð.

Þangað til næst.

1 ummæli:

Inga sagði...

Eru þessar furðurverur úr guðspjallinu? Hvernig gengur annars að leita að nýjum ofni?