miðvikudagur, desember 26, 2012

Jólin 2012

Jólastússið gekk heilt yfir á bærilegastan hátt þetta árið.  Hefðbundin aðfangadagur á þessum bænum, ég byrjaði á því að fara í vinnuna til rétt rúmlega 11:00.  Hef val um að mæta á aðfangadag eða gamlársdag og hef haft það að venju að velja aðfangadaginn og finnst það bara fínt.  Geri svo sem ekki margt djúpstætt, en tek aðeins til í tölvupóstinum og þessháttar.  Ég þurfti aðeins að koma við í Elko áður en ég myndi renna heim og hélt að það yrði easy-peacy verkefni.  Ekki alveg svo, eftir stutt stopp við hillurekkana til að finna það sem ég var að leita að tóku rúmlega 15 mínútur í biðröð á kassa við.  Magnað, en ég get víst ekki fussað yfir því þar sem ég var þátttakandi í vitleysunni.

Skytturnar þrjár voru mjög slakir og fínir, auðvitað nettur spenningur en allt innan skynsemismarka.  Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaup rann ljúflega niður og svo þurfti víst að ganga frá eftir matinn áður en farið var í aðalatriðið.  Ekki verður sagt annað en að allir hafi verið sáttir með sinn hlut, sem er alltaf kostur.  Miðað við það sem kom undan jólapappírnum hefði eitthvað annað líka verið hálfskakkt.

Yfirmaður pakkaúthlutunarnefndar
Daði Steinn og mamman
Spennan að bera menn ofurliði

"Díses, þið eruð ekki í lagi"
Bæði betra?


Fórum svo í hangikjötið í Bröttuhlíð á jóladag.  Þar var rúllað um á meltunni í einhverja tíma á milli þess sem maður kyngdi hangikjötinu, jólaísnum og döðlukökunni.  Líkaminn hélt nú áfram störfum þrátt fyrir þetta allt, sem kemur manni alltaf hálfpartinn á óvart á þessum árstíma.

Verð að viðurkenna almenna leti í dag, börnin náðu u.þ.b. 30 mínútum úti í kuldanum í dag, sú súrefnisinntaka, þ.e. af fersku hráefni, varð að duga.  Ég straumaði Man Utd - Newcastle og sá ekki eftir því, Litla baunin með sigurmark þegar klukkan sló í 90 mínútur og 4:3 sigur staðreynd.  Sannaðist hið fornkveðna - Football, bloody hell...
Var svo rétt með meðvitund þegar hin árlega frétt um alla þá sem fóru í ræktina, annan í jólum, kom á skjáinn.  Mér finnst hún orðin svolítið lúin ef ég á að vera alveg heiðarlegur.  Ég hristi þó af mér slenið og tók létta hreyfingu inn í eldhús til að athuga hvort ég gæti ekki æft kjálkana enn betur.

Það er hægt að tala um Quality street-ið sem var keypt fyrir jólin í þátíð núna.

Engin ummæli: