þriðjudagur, desember 13, 2005

"Hóst - hóst"

Karlinn skrölti aftur til læknis í gær, enda var ekki annað hægt. Maður er búinn að vera hóstandi í 4 vikur eða eitthvað þvíumlíkt og alltaf í tómu rugli. Það er ekki hægt að vera svona, maður verður svo meir, lofar öllu fögru um betri lifnaðarhætti þegar maður nær heilsu, ræktin 3x í viku og gulrætur með imbanum á kvöldin. Doktorinn lét mig hafa nýjar pillur og púst eins og asmasjúklingarnir eru með og fullyrti að þetta eigi að gera mér gott, annars verð ég að fara í eitthvað allsherjar tjékk, bara frá skottinu og uppúr. Ég get þá kannski farið að hringja í mömmu aftur en ég var nánast farinn að forðast það því hún hafði alltaf svo miklar áhyggjur hvað maður hóstaði mikið. Ég tók alltaf léttar öndunaræfingar áður en ég hringdi í hana en alltaf fór þetta í sama farið. Fljótlega í símtalinu fann ég hvernig ég þurfti að hósta en ég reyndi eins og ég gat að birgja hann inni. Ég fann hvernig ég hitnaði allur í framan og svitataumurinn lak niður úr handarkrikanum. Svo gat ég ekki meir: "Hóst - hóst". Í brot úr andartaki var ég að vonast til að hún hafi ekki fattað það að ég hafi verið að hósta en... "Davíð minn, ertu ennþá svona slæmur í hálsinum? Mér líst ekkert á þetta, ertu búinn að fara til læknis?" Ég reyndi að malda í móinn og koma með einhverja afsökun um að ég væri mikið betri og það hefði bara verið eitthvað fast í hálsinum á mér. Mundi þá að líklega notaði ég þessa línu þegar ég talaði við hana síðast og fann hvernig sannfæringarkrafturinn fór allur út um gluggann og ég fór í þvílíka vörn að annað eins hefur ekki sést síðan Franco Baresi var og hét. "Þú verður að tala við einhvern sérfræðing, þetta er ekki eðlilegt, þú ert alltaf með eitthvað kvef". Þannig að karlinn pantaði sér tíma, mömmur hafa alltaf rétt fyrir sér sagði einhver.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ánægð með þig..... að þú fórst til læknis en ekki að þú sért enn veikur .....