laugardagur, desember 10, 2005

Idol

Ég get ekki sungið nótu skammlaust, er rammfalskari en allt. Hef oft og iðulega óskað þess að ég geti sungið eins og þessi eða hinn söngvarinn þegar maður heyri einhverja söngframmistöðu sem lætur gæsahúðina myndast af unaði á örskotsstundu. Ég myndi t.d. ekki eiga nokkuð erindi í Idolið nema til að fá mínar 15 mínútur af frægð og gaula Stál og hnífur alveg út úr kú og finnast voða fyndið að ergja dómnefndina með einhverju bulli. Reyndar fell ég ekki lengur inn í aldursramma Idolsins en það er önnur saga.

Ég er ekki með Stöð 2 og hef eiginlega aldrei verið með hana. Að þeim sökum hefur Idol áhorf mitt verið frekar brösótt þessar þrjár seríur sem hafa verið í gangi. Fylgdist svolítið með í þeirri fyrstu, bæði vegna þess að þetta var sú fyrsta og síðan var Kalli Bjarni gamall skólafélagi úr Grundarfirði. Sá eitthvað af blálokunum í síðustu seríu en get varla sagt að ég hafi séð nokkurn skapaðan hlut af þeirri sem er núna í gangi. Ég fór að hugsa um þetta um daginn þegar ég var að fletta Plötutíðindum og rak augun í eitthvað samkurl af einhverjum gömlum Idolþátttakendum sem voru að gefa út plötu. Hvað hefur þetta lið sem hefur tekið þátt í þessum þáttum skilið eftir sig? Þetta er eitthvað bland í poka af einhverjum nokkrum mistækum nýjum lögum og svo einhverjum gömlum slögurum sem er búið að taka svo oft að það er beinlínis sorglegt og eru svo nánast fluttir nákvæmlega eins og frumflutningurinn svo þetta klikki nú örugglega ekki. Þetta eru nú nokkrar plötur sem komið hafa út, Jón “Létt 96,7” Sigurðsson kom með einhverjar tvær cover plötur, aðra á ensku og hina á íslensku held ég og bræddi allar húsmæðurnar í vesturbænum. Kalli Bjarni kom með einhverja bland í poka plötu, Davíð Smári fór nú langt með að eyðileggja Heaven Help ballöðuna með ofurtöffaranum Lenny Kravitz, frekar þunnt eitthvað sem ég heyrði frá honum. Stöllurnar Heiða og Hildur Vala voru svo í svipuðum stíl, held þó að Heiða hafi verið með einhver frumsamin lög í bland við margnauðguð Trúbrotarlög. Steininn tók síðan úr þegar fyrrnefndur flokkur skipaður gömlum Idol hetjum fór út í það að gefa út gamlar “dægurperlur frá sjöunda og áttunda áratugnum í kraftmiklum flutningi”. Voðalega er þetta eitthvað þreytt og fyrirsjáanlegt allt saman, algjörlega steingelt. Af þessum Idol diskum sem ég man eftir get ég ekki nefnt eitt nýtt lag sem hefur skilið eitthvað eftir, en kannski er það bara ég. Ég skil alveg að sem sjónvarpsefni er Idolið algjör snilld, keppni í söng í fjörugum umbúðum en ég held bara að það sé fullt af fólki þarna úti sem getur sungið en sem betur fer er ekki nóg að líta þokkalega út og geta sungið til að meika það í þessum bransa. Það verður að vera eitthvað meira í þetta spunnið og þar held ég að skilji á milli meðalmennskunnar og þeirra sem komast lengra. Þetta er kannski allt í góðu með þá sem “meika” það úr Idolinu, ef það er hægt að mjólka þetta eitthvað með að syngja í brúðkaupum og árshátíðum ásamt því að gefa út coverplötur, þá er það bara flott, ég er alltaf tilbúinn að taka ofan fyrir fólki sem nær að búa til peninga með því sem það er að gera. En tónlistarlega séð ætla ég að biðja um meiri frumleika og meira þor. Kannski er ég bara ósanngjarn og er að biðja um eitthvað sem er ekki hægt að fá hjá þeim Idolum sem komið hafa fram. Ég bíð bara áfram rólegur en býst í raun ekki við miklu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já djöfull er að heyra þetta. Eigum við ekki bara að hella okkur útí þennan bissness fyrir næstu jól. Endugefa út uppáhaldslög gáttaþefs eða eitthvað svoleiðis gút end klassik sjitt

Nafnlaus sagði...

já má ég vera í bakröddum