Sökum vinnunnar þá keyri ég mikið og maður hefur nú séð eitt og annað í umferðinni en kveikjan af þessum pistli var lítið atvik sem gerðist núna í vikunni:
Ég var að keyra á Sæbrautinni og sé að það kemur gult ljós á gatnamótunum framundan. Ég dreg úr hraðanum og geri mig líklegan til að stoppa en bílinn við hliðina á mér gefur í og fer yfir á hvínandi rauðu ljósi. Mér brá svolítið því bíllinn var merktur ÆFINGARAKSTUR en dró þá ályktun að einhver hefði bara gleymt að taka miðann af, það gæti ekki verið að einhver sem væri í æfingarakstri myndi aka svona. Tveimur gatnamótum seinna lendi ég við hliðina á þessum bíl og mér til mikillar hrellingar situr ung stelpa bak við stýrið, líklega á bílprófsaldri, og eldri kona við hliðina á henni. Veit ekki hvort þetta var móðir-dóttir ökutími en hvað sem þetta var þá var það slæmt.
Ég reyni að vera góð fyrirmynd í akstri sem og öðru, sérstaklega gagnvart drengjunum mínum. Stundum fæ ég illt auga frá konunni þegar við, eða öllu heldur ég, erum að keyra. Enda get ég alveg kvittað upp á það að stundum má ég alveg draga andann djúpt og slaka á. Ég hef hinsvegar tekið eftir einu sem ég get ekki alveg útskýrt. Mér finnst að ég keyri öðruvísi þegar ég keyri sjálfskipta bíla, tala nú ekki um ef þeir eru með þægilegum sætum og svona vel úr garði gerðir. Maður dettur í einhvern chill fíling, lætur bara fara vel um sig og stýrir, allt voða afslappað og letilegt.
2 ummæli:
þú ert víst glanni..... Mér stendur ekki alveg á sama stundum þegar ég er í bíl með þér...... En hey ekki orð um það meir.... Ég þarf stundum skutl ekki satt !!!!!
Ég þarf nú stundum að telja upp að 10 svo ég sé ekki alltaf að tuða yfir ökulaginu, skipti mér ekki af því þegar hann er einn í bílnum en það gildir öðru þegar fjölskyldan er saman komin í Puffaranum.
Skrifa ummæli