sunnudagur, mars 26, 2006

Árshátíð

Vinnan hélt árshátið í gærkvöldi og það var vandað til verka eins og venjulega. Byrjaði heima hjá forstjóranum eins og venjan er, í öl og snittur en síðan var öllum mannskapnum komið niður í Laugardal þar sem aðalgeimið var í Félagsheimili Þróttar. Þar sem fyrirtækið vex og dafnar þá voru ansi margir þarna sem ég þekkti engin deili á. Fyrir svona 2-3 árum voru þetta 30+ starfsmenn hjá fyrirtækinu og dótturfyrirtækinu. Þá mætti maður á árshátið og það var svona ein og ein hræða sem maður var ekki alveg viss hvort væri starfsmaður eða maki. Á ekki svo löngum tíma er búið að versla einhver þrjú batterí, misstór reyndar, sem hafa bæst í pakkann og þaraf er eitt fyrir norðan á Akureyri. Þannig að núna voru þetta rétt rúmlega 100 manns með mökum sem mættu og ég verð að viðurkenna að ég var gjörsamlega týndur þarna. Gott ef ég þekkti deili á 1/3 af mannskapnum. Það hjálpaði ekki að ég missti af árshátiðinni í fyrra vegna veikinda og var því týndari en ella.

Konan kom ekki með í þetta skiptið þar sem hún ákvað að skella sér vestur á Snæfellsnesið og fara á jökulinn með einhverju fólki sem allt þurfti að fara og ná sér í orku. Vona að allir komi þaðan sem endurnærðir orkuboltar.

Þar sem ég var maður einsamall þá fannst mér ég stundum verða hálfgerð afgangsstærð í svona dæmi. Dregið til borðs og þá gilti miðinn með númerið á borðinu fyrir tvo o.s.frv. Leist ekkert á þetta þegar ég sá borðið sem mér var “úthlutað”, 11 hausar að mér meðtöldum, lagermaður hjá okkur og konan hans sem ég þekkti vitaskuld en afgangurinn var allt lið að norðan sem ég hafði aldrei á ævinni séð. Enda vorum við þrjú ekki alveg að digga alla umræðuna og brandarana sem fengu að fljúga þarna um borðið. Maturinn var fínn og skemmtiatriðin sömuleiðis. Krakkar úr Fjölbraut í Garðabæ komu og fluttu tvö lög úr Sister Act eða Systraspili, söngleiknum sem skólinn er að setja upp. Svo komu tveir kóngar á svæðið, nei það voru ekki Simmi og Jói eða Sveppi og Auddi. Það voru Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson. Langflottastir, miðað við undirtektirnar í salnum og það verður ekki sagt að þessir kappar kunni þetta ekki. Ef þetta var ekki nóg fyrir mannskapinn þá kom IceBlue sjálfur, Geir Ólafsson, og söng einhver lög. Ég ákvað þá að standa upp og kíkja á liðið út í smók, jafnvel þótt ég reyki ekki. Þarna á milli atriði var haldið happdrætti þar sem dregnir voru út misspennandi vinningar, allt frá páskaeggjum til utanlandsferðar til Evrópu fyrir tvo. Það fór aldrei svo að kappinn hirti ekki einn vinning og bara þokkalegan held ég. Flug fyrir tvo til Akureyrar og heim aftur, gisting í eina nótt fyrir tvo á KEA Hotels og 8.000 kr inneign hjá veitingarhúsinu Greifanum á Akureyri. Heyrðu, þetta lítur bara ágætlega út svona á prenti, veglegur vinningur.

Maður var svo bara rólegur, tók leigara heim með eitthvað af Breiðholtsbúum og var kominn heim klukkan að verða 2.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Davíð þú býður mér með til Akureyrar... Ég skal lóðsa þig um enda bjó ég þarna í 3 ár....Kynna þig fyrir skemmtilegu fólki og svoeliðis... Rosa stuð LOFA ÞVÍ

Villi sagði...

Jæja, Jóhanna - þá veit ég hvar þú stendur. Ég skal muna þetta þótt síðar verði!

Nafnlaus sagði...

Það eru nú fleiri sem hafa búið á Akureyri... Þarf ekkert að lóðsa þig eitt né neitt. Ég skal teikna inn á kort fyrir þig hvar Ísbúðin Brynja er og svo hvar Greifinn er. Málið dautt.

Nafnlaus sagði...

Ég vona bara að þú bjóðir konunni með, ég skal passa drengina fyrir ykkur þ.e. ef þið ákveðið að skreppa í júlí eða ágúst :-)annars sendið þið þá bara til mín (hehe)