þriðjudagur, mars 21, 2006

Lasleiki og aulameiðsli

Logi Snær er lasinn, líklega kominn með flensuna, það er allir með flensuna þessa dagana. Eins og það sé eitthvað töff. Ég skrölti nokkrar ferðir inn til hans síðustu nótt svona til að gefa honum að drekka og athuga með hann, ekkert massa stemming. Mamma hans var svo heima með hann í dag en á morgun er víst komið að mér að standa vaktina. Hann sofnaði hérna í sófanum rúmlega sex í kvöld og lá þar til klukkan að verða átta en þá bar ég hann inn í rúm. Spurning hvort kerfið fari allt til fjandans og hann vakni klukkan fjögur í nótt reiðubúinn til að fara á fætur. Ég held ekki. Ég vona ekki. Svona var annars stemmingin á guttanum núna um kvöldmatarleytið.Annað mál. Getur maður slasað sig alvarlega með því að sparka í markstöng? Ég mætti á sunnudeginum upp í Austurberg til að taka þátt í þessum 8-liða úrslitum á innanhúsmóti Utandeildarinnar. Fór að því leytinu til á versta veg að við töpuðum leiknum 1:0 og gátum því pillað okkur heim á meðan liðið sem sló okkur út fór alla leið og hirti dolluna. Ekki það að við ættum að vera eitthvað sorgmæddir með úrslitin, töpuðum öllum leikjunum á þessu sama móti í fyrra og fengum á okkur einhver 17 mörk í þremur leikjum þannig að þetta var talsverð bæting. En maður er aldrei sáttur við að tapa og í bræði minni þegar dómarinn flautaði leikinn af þá fann ég ekki upp á neinu gáfulegra en að taka stöngin á markinu fyrir og sparka duglega í hana. Ekki það að hún hafi gert mér nokkurn skapaðan hlut eða haft á einhvern hátt eitthvað með þetta tap okkar að gera. Man ekki alveg hvernig ég hitti stöngina en núna er eins og ég sé marinn á ilinni, það er vont að stíga fast niður. Þvílíkur aulaháttur. Jæja, þetta hlýtur að jafna sig. Boðskapur dagsins: Anda rólega og láta ekki stundarbrjálæði leiða mann í einhverja vitleysu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyrðu ertu til í að hafa smá viðvörun áður en þú skrifar meira en 3 línur um FÓTBOLTA... ég hata fótbolta, ekkert mál að tala um það á blogginu fyrst það er nú áhugamál númer 1 en fínt væri að taka það sérstaklega fram áður en skrifin hefjast svo maður þurfi nú ekki að lesa þennan fjanda.....Knús til Loga frá mér og vona að honum batni nú fljótt

Með kærri kveðju úr flensufríu bæli fyrir vestan

Nafnlaus sagði...

Þú hefur bara sparkað í stöngina því að boltinn var upptekinn.... Þ.e.a.s að ég var upptekinn við að láta boltann finna fyrir bræði minni á þessum pirrandi úrslitum.