laugardagur, maí 06, 2006

Ekki á allt kosið

Er búinn að hanga hérna heima á þessum laugardegi, bara á stuttbuxum og bol. Það var ekki alveg planið. Er búinn að horfa hérna út í garðinn á krakkana leika sér og fólk dúlla sér á stuttermabolum á sólpöllunum sínum. En ég er bara inni. Ástæðan fyrir því er að Logi Snær er með einhverja skaðræðismagapest og er í tómu rugli greyið. Hann var búinn að vera örlítið furðulegur í maganum fyrir helgi en sökk svo í allan pakkann í gær. Var varla með meðvitund þegar hann var sóttur í leikskólann og ældi síðan allt rúmið sitt út seint í gærkvöldi. Í dag er hann búinn að sofa meira og minna í allan dag og það lita sem hefur farið inn um hans varir hefur komið aftur sömu leið.

Enn leiðinlegra fyrir vikið að Ísak Máni er að keppa í þessum pikkuðu orðum með ÍR á KFC mótinu sem Víkingur heldur og planið var auðvitað að öll fjölskyldan myndi mæta á svæðið en núna verður mamman að duga. Ísak Máni var búinn að peppa sig upp í að spila jafnvel eitthvað í marki (án alls þrýstings frá föðurnum – grínlaust) þótt að mótið sé spilað á malarvelli. Við verðum að vona að þetta fari allt vel og að menn komi heilir heim, bæði á sál og líkama.

Til að kóróna allt saman urðum við að afboða okkur í grillveislu upp á Skaga sem búið var að bjóða okkur í kvöld.

Svei þér pest…

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aumingja litli Logi Snær að vera svona lasin... Batnaðarkveðjur frá Suðureyri