föstudagur, júní 23, 2006

Miðbæjarrottur sem uppfyllingarefni á NFS

Tók stutta vinnuviku núna í vikunni sem er að líða, lét mér nægja að láta sjá mig á Cocoa Puffs lestinni á mánudeginum og þriðjudeginum og lét það duga. Vitið menn, búið að rigna í 7 vikur samfleytt en síðan kom sólin á miðvikudeginum. Fór svo á eitthvað snatt með Loga Snæ á fimmtudeginum sem endaði í chilli niðri í miðbæ. Ég er engin miðbæjarrotta. Ólst samt upp í póstnúmerunum 101 og 107 frá fæðingu til 13 ára aldurs og hef því smá taugar til miðbæjarins, ég neita því ekki. Við Logi enduðum þennan rúnt okkar við tjörnina. Þegar við stóðum þar kom til okkar kona sem hafði farið á einhvern samlokustað til að sníkja smá brauðhleif til að gefa öndunum (eða mávunum) en fékk þennan risapoka með 6 eða 7 lengjum af brauði þar sem hver lengja var vel á annan metra. Hún sá fyrir sér að vera í vandræðum með þetta og lét okkur Loga fá eina lengju. Loksins þegar við vorum við það að klára þessa lengju okkar kemur til mín ung kona vopnuð míkrafóni merktum NFS en ég hafði veitt henni og myndatökumanni hennar athygli einhverju áður þarna við tjörnina. Þegar ég sé að hún nálgast mig reikna ég með að hún ætli að forvitnast um álit mitt á nýju borgarstjórninni, framtíð flugvallarins eða eitthvað álíka djúpstætt. Ekki aldeilis, hún kemur upp að mér og spyr hvort ég geti sagt frá besta sumarfríinu mínu! Frábært hugsa ég, á nú að nota kallinn sem eitthvað uppfyllingarefni á NFS með eitthvað innantómt tal. Hvað um það, maður gat nú ekki neitað þessu, babblaði eitthvað um þegar ég fór til Namibíu og andstæða menningarheima og bla bla bla. Þar sem að Sýn er ríkisstöðin á heimilinu mínu þessa dagana þá spáði ég ekki einu sinni í þessu meira, Sýn rúllaði bara í kassanum þegar fréttirnar á Stöð 2 (NFS) voru sýndar um kvöldið. Frétti svo í gegnum símtal sem ég átti við vinnufélagann minn að ég hefði verið í fréttunum þar. Ekki neitt sumarfrísviðtal heldur heilalaust myndefni í frétt um atgang máva niður við tjörnina. Í brotinu sem mér bregður fyrir sást þegar Logi nálgaðist ískyggilega brúnina á tjörninni og þegar ég nánast skutla mér á hann og gríp hann áður en hann steypir sér út í vatnið. Auðvitað var þetta ekki svona ýkt en þessi klippti og skorni myndbandsbútur leit samt frekar illa út fyrir mig þegar ég kíkti á þetta á netinu eftir að ég fékk þessar fréttir. Ábyrðarlaus faðir að spóka sig í sólinni með soninn og næstum því búinn að missa hann út í tjörnina... Spurning hvort einhver hafi séð mig lýsa íslensku sumri á namibískri grundu á undan Hrafnaþingi á NFS?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Davíð minn ég kikti á netið og þetta lítur ekki vel út. Ég mæli með allir kiki á www.visir.is vefsjónvarð og skoði þessa frétt...
hahhaahhahah

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú nú heppinn að ná að grípa í löppina á honum áður en hann stakk sér til sunds á eftir mávunum.