laugardagur, júní 17, 2006

17. júní

17. júní í öllu sínu veldi. Í minningunni tengist þessi dagsetning alltaf miðbæ Reykjavíkur og mikið af fólki. Það er líka alltaf sól. Ekki eins og núna sem sagt. Man að einhverntímann var ég niðri í bæ á þessum degi, lítill patti og mér fannst alveg yfirgengilegt hvað það var mikið fólk í miðbænum. Mig minnir að Villi hafi verið með mér, alla vega var það þannig að troðningurinn var svo mikill að ég sá ekkert fram fyrir mig eða út til hliðanna og það eina sem ég gat gert var að horfa til himins til að sjá eitthvað annað en olnboga og bök.

Hvað um það, núna tengist 17. júní ekki sól og ég sé það sem ég vil sjá. Við hjónaleysin erum búin að átta okkur á því að eina vitið er að mæta á slaginu niður í bæ þegar dagskráin á að hefjast og losna þar með við mestu biðraðirnar í hoppukastalana. Það var líka þannig í dag að menn voru búnir að fá sinn skammt nokkuð snemma, veðrið hafði sitt að segja, og því voru við að fara til baka þegar biðraðirnar voru farnar að þéttast allverulega.Í minningunni um sólríku 17. júní hátíðarhöldin man ég hins vegar ekki eftir hverskonar skemmtanir voru í gangi, ég held samt að ég geti fullyrt að í minni æsku voru hoppukastalar ekki búnir að ryðja sér til rúms, a.m.k. ekki af sama krafti og er í dag. Minnir að þetta hafi meira samanstaðið af einhverju labbi um miðbæinn og spjalli við kunningja sem menn rákust á við þetta títtnefnda labb. Svo ef ég rek mig áfram í tíma þá get ég varla sagt að ég muni eftir einum einasta 17. júní í Grundarfirði. Kannski hafa þau hátíðarhöld ekki haft eins djúp áhrif á mig og miðbær Reykjavíkur í frumbernsku. Sjómannadagurinn var meira eitthvað sem situr í kollinum í skránni Grundarfjarðarminningar.Ætli það eftirminnilegasta frá 17. júní í Grundarfirði hafi verið þegar ég var úti á sjó þennan dag og þegar við vorum búnir að hífa inn trollið var farið í stutta skrúðgöngu á dekkinu áður en haldið var niður í aðgerð, ekki öll vitleysan eins úti á sjó. Anyway, maður spyr kannski börnin sín þegar þau verða orðinn eldri um þeirra minningar um 17. júní. Kannski verður svarið einfaldlega rigning og hoppukastalar eða kannski eitthvað allt annað.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottar myndir. En hvernig væri nú að uppfæra myndasíðuna !!

Nafnlaus sagði...

Ég man heldur ekki eftir að það hafi verið hoppukastalar eða annað þvíumlíkt í minni bernsku, en það voru skrúðgöngur yfirleitt þann 17 júní þegar verið var að reka kýrnar út í haga og ná í þær aftur :-)

Nafnlaus sagði...

Það var alltaf hittingur á esso planinu í Grundó í denn... Kanski var það á esso túninu??? Eða var það álfabrennan á þrettándanum??? Ég er í tómu tjóni, þetta rennur allt saman í eitt.