sunnudagur, ágúst 13, 2006

Síðsumars pælingar

Var að taka eftir því um daginn að það er kominn niðamyrkur úti núna á kvöldin um það leyti sem maður skríður upp í bælið. Hélt að ég yrði meira þunglyndur yfir þeirri staðreynd að veturinn sé að koma en ég er í dag. Það er kannski lítið að marka það, þetta á eflaust eftir að hellast yfir mann þegar maður fer að drösla Loga Snæ í leikskólann, dúðuðum upp fyrir haus og skafandi frosthélið af bílnum. Annars hef ég reynt að taka veturinn fyrir svona í skömmtum. Ég hugsa þetta yfirleitt þannig að öllu jöfnu meikar maður þetta fram að áramótum nokkuð létt, að því gefnu að sept og okt séu mannsæmandi, nóv og des fer í jólafíling og þá á nú að vera snjór og með því. Jan og feb eru síðan kannski svolítið leiðinlegir en þegar fer að koma í mars þá finnst mér nú yfirleitt stutt í sumarið.

Það fer nú allt að detta í gömlu rútínuna aftur, Sigga er að fara að vinna á þriðjudaginn og þá fer Logalingur í leikskólann aftur. Við höfum svona verið að ræða þetta við hann í góðu, svona til að taka púlsinn á stemmingunni. Hvað get ég sagt, hann virðist ekkert vera neitt sérstaklega hrifinn af hugmyndinni um að vera að fara aftur í leikskólann. Ég vona bara að þetta verði ekkert stórmál en kappinn er reyndar ekki búinn að fara í leikskólann í einhverja tvo mánuði. Ísak Máni byrjar svo í skólanum í vikuna eftir það, drengurinn að fara í 2. bekk! Rosalega líður þetta hratt allt saman.

Engin ummæli: