miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Jafnrétti

Stundum fæ ég alveg upp í háls af þessu jafnréttistali öllu.

Djö... hljómar þessi byrjun illa. En ég meina t.d. þegar konur eiga hlutfallslega fáa fulltrúa á einhverjum stöðum og einhverjum sérfræðingum finnst þá ómögulegt annað en að allt verði gert til að jafna þeirra hlut.

Ég er ekki að tala um launamisrétti eða neitt þannig. Bara til að hafa það á hreinu þá er ég á þeirri skoðun að sömu störf leiði af sér sömu laun. Það á ekki að mismuna fólki almennt, af því að viðkomandi sé kona, hafi dökkan hörundslit, sé örvhentur, treggáfaður, yfir kjörþyngd, undir kjörþyngd o.s.frv.

Dæmi:


Ég er atvinnurekandi og er að ráða í ákveðna stöðu í fyrirtækinu hjá mér. Á borðinu hjá mér liggja tvær umsóknir, önnur frá karlmanni og hin frá kvenmanni. Segjum sem svo að þau séu bæði með samskonar menntun og starfsreynslu. Ég fæ þetta fólk í viðtal og heyri hvað það hefur fram að færa. Hvað geri ég síðan? Jú, ég hlýt að taka ákvörðun um hvorn aðilann ég ræð og sú ákvörðun myndi þá byggjast á þeirri tilfinningu sem ég hefði fengið í þessum samtölum, hvor aðilinn ég myndi telja væri betur til þess fallinn að sinna þessu starfi. En ef 80% af því starfsfólki sem er starfandi í þessu fyrirtæki mínu eru karlmenn á ég þá frekar að ráða konuna til að rétta hlut kvenna í fyrirtækinu? Vitaskuld á þetta líka við á hinn veginn, þ.e. ef 80% væru konur, á ég þá að ráða karlinn? Þið verðið að fyrirgefa en ég sé ekkert vit í því. Ég myndi bara ráða þann aðila sem ég teldi að yrði betri starfskraftur fyrir fyrirtækið.

Tvö atriði varðandi Háskóla Íslands:


Árið 1987 urðu konur í fyrsta sinn fjölmennari en karlar í hópi innritaðra stúdenta og hafa síðan verið meirihluti nemenda. Man alltaf eftir að ég sá viðtal við ónefndan kvenréttindafrömuð fyrir nokkrum árum þar sem kom fram að konur voru í meirihluta í öllum deildum í Háskólanum nema í verkfræðideild þar sem þær voru aðeins rúmlega 25% nemenda. Lýsti þessi ágæti frömuður yfir miklum áhyggjum af stöðu kvenna í verkfræðideildinni og taldi nauðsynlegt að konur myndu sækja fram á þeim vettvangi! En hvað með allt hitt? Ég gat ekki annað en hugsað með mér: "Hey kerling, það eru konur í meirihluta í öllum öðrum deildum í HÍ, er það ekki bara frábær árangur kvenna ef þú vilt endilega setja þetta svona upp?"

Svo var fékk HÍ viðurkenningu frá Jafnréttisráði fyrir árið 2005 en eins og sagði í fréttinni:
Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að á þessu ári urðu þau tímamót í sögu skólans að kona var í fyrsta skipti kjörinn rektor. Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild var kjörinn 28. rektor Háskóla Íslands.

Af hverju er verið að hampa HÍ eitthvað sérstaklega fyrir þetta? Ég vona bara að hún hafi verið hæfasti umsækjandinn og að þeir sem réðu í þessa stöðu hafi verið að ráða hæfsta umsækjandann. Ég vona a.m.k. ekki að þeir hafi hugsað sem svo að nú væri kominn tími til að kona fengi þessa stöðu, heldur hafi hún einfaldlega verið hæfust.

Mér finnst snilldardæmi eins og staðan hefur verið í Grundarfirði undanfarið. Þannig er málum háttað að þar hafa konur setið í eftirfarandi stöðum: Bæjarstjórinn(er reyndar búin að víkja sæti fyrir karlmanni sem tekur við á haustdögum) , forseti bæjarstjórnar, presturinn, læknirinn, annar af tveimur bankastjórum, skólastjóri grunnskólans, skólastjóri framhaldsskólans og ritstjóri bæjarblaðsins. Eflaust eru einhver fleiri prýðisembætti í Grundarfirði í höndum kvenna en þetta var svona það helsta sem ég mundi eftir. Ég sé ekki tilganginn í að hampa þeim eitthvað sérstaklega af því að þær eru konur, ég held bara að þær séu allar færar í sínum störfum og ekkert meira með það. Að þær séu konur á ekki að skipta nokkru einasta máli.

Ef hinsvegar verðandi bæjarstjórinn í Grundarfirði verður á hærri launum en hinn fráfarandi vegna þess eins að hann hefur eitthvað annað vaxtarlag milli fóta sér þá þurfum við að staldar við, því þá er eitthvað að.

Engin ummæli: