þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Aðallega af Ísaki Mána

Best að henda inn nokkrum línum, smettið á minni ástkæru systir þegar maður villist hérna inn er orðið hálfþreytt.

Ekki laust við að það sé smá spennufall hérna eftir helgina. Ísak Máni var að taka þátt í fótboltamót í Austurbergi núna á sunnudeginum sem ÍR hélt. Með mömmu hans í foreldraráði og pabba hans sem formann, ritara og stjórnarmann í mótsnefnd þá var í nógu að snúast á þessu heimili. Ég er búinn að eyða einhverjum tíma sl. tvær vikur í að hafa samband við þjálfara hinna ýmsu liða til að fá þá á svæðið, gera leikjaplan o.s.frv. Svo kom mótsdagurinn og allt gekk eins og vel smurð vél og formaðurinn, ritarinn og stjórnarmaðurinn fór í enn eitt kvikindalíkið og gerðist tímavörður, á tveimur völlum í einu í rúma 4 tíma. Ekki slæmt hjá kallinum.

Ísak Máni var í B-liðinu sem stóðu sig vel, 5 sigurleikir í 6 leikjum var flottur árangur, aðeins minnsta mögulegt tap á móti Val sem kom í veg fyrir 100% árangur. En gleðin var þó fyrir mestu og ég held að flestir hafi gengið sáttir frá borði. Það var svo ekki slæmt að taka á móti viðurkenningu í lokin úr hendi mömmu sinnar.Annars er Ísak Máni farinn að læðast á handboltaæfingar, þ.e. þá daga sem hann er ekki á fótbolta- eða sundæfingum. Ég veit, þetta er náttúrlega bilun en á meðan hann vill þetta sjálfur þá viljum við ekki standa í vegi fyrir honum. Þetta eru svo ekki neitt djúpstæðar handboltaæfingar fyrir þennan aldur, meira svona skotbolti og þessháttar. Eitthvað hefur maður heyrt þó af því að það styttist í mót fyrir þessa maura, það verður án efa skrautlegt. Spurning hvort maður sér 0:0 úrslit í einhverjum leikjum?

Vantar nokkuð reynslubolta á klukkuna?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er vön að gefa þig fram í hlutverk og halda mér til hlés, svo það er aldrei að vita hvað gerist ef ég fæ einhverju ráðið, he, he, he.