laugardagur, júní 23, 2007

Skagamótið 2007, brúðkaup og Logi Snær heillar Gaupa

Nóg að gera þessa helgina, eins gott að karlinn er skriðinn i sumarfrí svo hægt sé að taka næstu viku í að ná sér eftir þetta.

Skagamót hið síðasta hjá Ísaki Mána hófst í gær. Kappinn í B-liði þetta árið og veðurspáin hin besta fyrir helgina. Sigga var ekki í fararstjórahlutverki þetta árið sökum handarmeiðsla enda nýkomin úr uppskurði vegna slitna liðbandsins. Ekki voru úrslitin eins og vonast var eftir, þrjú töp í jafnmörgum leikjum og þýska deildin (samsafn taparana) því framundan á laugardeginum. Ísak Máni var ekki alveg sáttur enda þriðjaSkagamótið hans og árangur síðustu tveggja hefur verið alveg ljómandi. Það bar þó til tíðinda að við Logi Snær vorum að sparka bolta okkar á milli á keppnissvæðinu þegar sjónvarpsmenn frá Sýn ber að garði en þeir eru að gera þátt um mótið. Fer þar fremstur meðal jafningja Guðjón Guðmundssson, Gaupi, ásamt sjónvarpstökumanni. Er honum starsýnt á Loga og Sigga er fljót að grípa hann og dásama knatttækni drengsins. Eftir að honum er tjáð aldur pilts kallar hann á tökumanninn og þeir taka smámyndbrot að Loga dúndra í boltann. Ekki fékk Gaupi neitt upp úr drengnum þegar hann gerði tilraun til að taka viðtal við hann, ekki nema kinkandi kollur. Bíður maður nú spenntur eftir þættinum um Skagamótið til að sjá hvort Loga verði haldið inni eða klipptur út.


Ekki gafst okkur mikill tími eftir að Ísak Máni kláraði síðasta leikinn heldur var brunað til Reykjavíkur, eftir að Loga var skutlað í pössun til Gullu, því næst á dagskrá var brúðkaup hjá Haraldi og Kristínu. Gifting í Hallgrímskirkju og veisla í safnarheimili Háteigskirkju, ljómandi partí það.

Klukkan hringdi kl 7:00 í morgun og enginn tími fyrir droll því fyrsti leikur hjá Ísaki Mána kl 9:00. Liðið var hálf brothætt eftir hörmungar gærdagsins og ekki gaf byrjun dagsins von um betri tíð. Tveir fyrstu leikirnir töpuðust frekar örugglega og sálarkreppa og óeining voru efst á baugi þegar hér var komið við sögu. Menn rifust um það hver átti að vera í marki, hver átti að vera frammi o.s.frv. En eftir krísufund með þjálfaranum og heilmikið pepp frá fyrirliða 3ja flokks ÍR sem staddur var á svæðinu í aðstoðarhlutverki hafðist 2:0 sigur á Víkingi í þriðja leik og 2:2 jafntefli við Ægir frá Þorlákshöfn í lokaleik dagsins gerði það að verkum að allt önnur og betri stemming var yfir hópnum.

Svo var reynt að hafa ofan af drengjunum m.a. með fjöruferð þar sem fyrrnefndur sjónvarpstökumaður Sýnar mætti og ekki minnkar það stemminguna fyrir þætti Sýnar sem verður sýndur 28. júní. Krossa ég nú fingur að annað hvort verði báðir drengirnir sýndir eða hvorugir, helst hið fyrrnefnda vitaskuld.



Lokadagur mótsins á morgun, einn leikur við Þrótt og svo grill og lokahóf áður en maður heldur heim á leið fljótlega eftir hádegið. Vonandi fær þetta allt farsælan endi, fyrir öllu að menn gangi sáttir frá borði.

Engin ummæli: