laugardagur, desember 22, 2007

Undirbúningur jólanna

Svei mér ef það hefur bara ekki verið allt vitlaust að gera þessa rúmlega síðustu viku.

Síðasta helgi fór eitthvað í matarboð, á föstudeginum hjá vinahjónum okkar hérna í hverfinu og svo var farið í skötu upp í Mosó á laugardeginum. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá hélt ég mér við fiskréttinn, þ.e. það sem var boðið upp á fyrir þá sem þykjast ekki geta borðað skötu.

Ísak Máni keppti svo í fótbolta á jólamóti í Egilshöllinni á sunnudeginum. Þeim gekk svona lala, 2 jafntefli og 2 töp. Minns var í markinu í tveimur leikjum en færði sig svo í vörnina og stóð sig vel. Sem fyrr, hlutlaust mat.

Síðan hefur þetta verið svona að gera og græja fyrir jólin. Maður reynir nú að halda ró sinni en það þarf vitaskuld að kaupa einn eða tvo pakka. Svo voru það jólakortin og vitaskuld þurfti maður að redda einhverju í jólamatinn. Sem sagt, allt svona hefðbundið.

Villi og co mætt á svæðið og farið var í útskriftarveislu til þeirra í gær, Dagmar var að setja upp hvíta kollinn. Fjöldi manns samankomin í Æsufellinum, fínasta partý þótt yngstu drengirnir voru eitthvað ekki alveg með skilgreininguna á partýi á hreinu. Eða bara það að þeim fannst þetta ekkert partý. Ekki gott að segja.

Annars held ég að þetta sé allt að skríða saman og mín vegna mega jólin alveg koma.

Engin ummæli: