laugardagur, júlí 05, 2008

Costa del Sol

Flugtak var áætlað kl 6:30 þann 18. júní þannig að menn fóru snemma að sofa eftir þjóðhátíðardagsskemmtunina. Stíft ferðalag framundan því við höfðum fengið tilkynningu um að vegna versnandi gengisafstöðu krónunnar sem leiddi af sér meiri bölmóð í þjóðfélaginu sem leiddi af sér færri sólarlandapantanir þetta árið, þá var ekki annað hægt en að hliðra til eitthvað af flugferðum og í okkar tilfelli þýddi það að við þurftum að millilenda á Mallorca. Þar fór stór hluti ferðalanganna út en við þurftum að húka inn í vél og bíða eftir Íslendingum á heimleið sem þurftu að gera sér að góðu að fljúga með okkur áfram til Costa del Sol áður en þeir gátu lagt af stað heim. Til að lengja enn setuna í vélinni þá tókst öðrum af flugdólgnum sem var um borð, sem hafði greinilega farið inn á klósett og fengið sér pilluskammt ofan í allt áfengið sem hann var búinn að innbyrða, að missa meðvitund skömmu fyrir lendingu og því þurfti að kalla til spænsku lögregluna. Hún var reyndar ekkert að flýta sér að því að drösla þessum tveimur félögum út og við hin þurftum því að bíða aðeins lengur. Þetta ferðalag sem venjulega tekur víst 4 og 1/2 tíma tók 7 tíma. En út komust við.

Hótelið sem við vorum á var Timor Sol sem ég valdi eftir að hafa ráðfært mig við vinnufélaga minn sem er hokinn reynslu í þessum fræðum og búinn að prófa þetta allt. Hótelið sjálft var frekar lúið og alveg kominn tími á að poppa það upp en staðsetningin var gargandi snilld og það var í raun það sem við vorum að borga fyrir. Ströndin nánast í garðinum, stutt í smábátahöfnina með öllum veitingastöðunum og göngugata beint niður í miðbæ. Gargandi snilld.

Við höfðum tekið ákvörðun um að vera ekki að drösla börnunum í túrana til Gíbraltar og Marokkó, það er hægt að taka það síðar. Við völdum frekar styttri túrana, tókum krókódílagarðinn sem vakti mikla lukku og fórum í Selwo dýragarðinn. Síðan fórum við sjálf bæði í tívolíið og vatnsleikjagarðinn. Tívolíið var sannkölluð svaðilför, lögðum af stað fótgangandi kl 11:00 um morguninn og vorum kominn rúmlega 16:00 á leiðarenda, með skipulögðum stoppum á leiðinni. Skil reyndar ekki enn hvernig drengirnir náðu að dröslast þetta en ég verð þó að viðurkenna að síðast spölurinn var MJÖG erfiður, hitinn var alveg að gera útaf við menn. Vorum síðan í tívolíinu til rúmlega 22:00 en ákváðum að fórna einhverjum evrum í leigubíl aftur niður á hótel. Ísak Máni var reyndar smátíma að taka tívolíið í sátt en viðmiðunarhæð í mörg tækin var 1.40 metrar. Sem er svona u.þ.b. hans hæð og það fór svolítið eftir þeim sem hleyptu inn í tækin hvort hann slapp eða ekki í tækin. Verra var líka að sumsstaðar var hámarkshæð 1.40 metrar og því lendi hann í því að mega ekki fara með bróðir sínum í einhver tæki. Mjög spes. Eftir reynslu sína af tívolíinu í Kaupmannahöfn þar sem honum var hleypt í nánast hvað sem var þegar hann var rétt 5 ára þá var hann ekki alveg 100% sáttur. Ég held að hann sé búinn að setja stefnuna á að fara aftur þangað við fyrsta tækifæri og aftur í þetta tívolí þegar hann er orðinn vel yfir 1.40 metrar á hæð.

Vatnsleikjagarðurinn var líka á dagskrá hjá okkur. Mikið fjör, sérstaklega fyrir mig og Ísak Mána en Logi Snær var ekki alveg með aldur í alvöruna þótt hann hafi haft það fínt í krakkahlutanum. Við Ísak Máni gátum ekki farið án þess að fara í þessa stærstu, Kamikaze. Þegar við vorum komnir upp þá var ég: a) skíthræddur um að Ísak Máni myndi ekki þora og við þyrftum að labba niður allan stigann aftur eða b) ég myndi ekki þora og þyrfti að labba einn niður allan stigann. Veit ekki hversu vel myndin af græjunni sýnir alvarleika hennar en ég get þó sagt að þegar maður sat og leit niður þá sá maður ekki sjálfa rennibrautina því fyrstu andartökin voru nánast í frjálsu falli. Á leiðinni niður áttaði ég mig á því af hverju við áttum að vera með krosslagaðar fætur því þann hluta ferðarinnar sem ég var ekki þannig þá fóru sundbuxurnar alveg upp í heila. Við Ísak Máni tókum þrjár ferðir áður en yfir lauk og ógeðslega var það gaman.

Ekki hægt að sleppa því að tala um fótboltann en EM var vitaskuld í gangi þegar við vorum úti og Spánverjarnir fóru alla leið og kláruðu þessa keppni. Þá var sko ekki leiðinlegt að vera út á Spáni. Við fórum og horfðum á leikina meðal Spánverjanna og það var mikið fagnað á götum úti, þetta var alvöru. Ég gat líka haldið nánast óhindrað með Spánverjunum eftir að þeir slógu Ítalina mína út sem gátu svo sem ekkert í þessari keppni.

Annað sem var gert var frekar hefðbundið. Það var eitthvað farið á ströndina og svo var líka verið í sundi út í hótelgarðinum. Minigolf var stundað og almennt chill.

Niðurstaðan úr þessari sólarstandartilraun er sú að þetta var alveg að virka og ég væri til í að gera þetta aftur, ég væri meira að segja til í að fara á þennan stað aftur.

Fleiri myndir á myndasíðunni -HÉR-

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra að ferðin ykkar var svona skemmtileg.

Kær kveðja,
Gulla

Nafnlaus sagði...

Æðislegar myndir held að ég hefði ekki haft kjark í að halda á króudíl þrátt fyrir eitthvað smá teip á kjaftinn á þeim