mánudagur, júní 29, 2009

Shellmótið í Eyjum 2009

Þá er maður mættur heim aftur eftir Eyjamótið. Fyrsta skipti til Eyja ef frá eru talin nokkir dagstúrar á vegum vinnunnar og það er ekki hægt að neita því að karlinn var búinn að kvíða þessu aðeins, það verður bara að segjast alveg eins og er. Undirritaður var hluti af fararstjórateymi ÍR-inga en aðrir fjölskyldumeðlimir urðu eftir heima. Fórum til Eyja á miðvikudeginum, hádegisdallurinn tekinn og landað um þrjúleytið. Ég hafði aldrei farið í Herjólf áður og vissi ekki alveg hvernig það liti út. Sem betur fer var sléttur sjór og margir gátu hreinlega verið út á dekki að vörka tanið. Ísak Máni var nokkuð góður en þáði alveg koju og svaf góðan hluta ferðarinnar, sem var bara mjög gott. Fórum svo í skólann og slógum upp búðum. Notuðum restina af deginum til að klára túristapakkann með liðið, bátsferðina og rútuferðina um eyjuna, en fyrstu leikirnir voru svo á fimmtudeginum.


Fimmtudagurinn rann upp, stór dagur enda 10 ára afmælið hjá leikmanni númer 5. Hálfleiðinlegt veður, rigningarsuddi en sem betur fer ekki mikið rok (ótrúlegt en satt). Þrír leikir þann daginn, 2 jafntefli og 1 sigur og sigur í riðlinum sem leiddi af sér taumlaus og innileg fagnaðarlæti. Taplaus afmælisdagur og menn helsáttir. Seinna komust við því að hann fékk einnig Shaquille O´Neal í afmælisgjöf en honum var „treidað“ yfir til Cavaliers í NBA boltanum. Helsáttur við það einnig. Án þess að ætla að fara yfir helstu reglur Shellmótsins þá er rétt að nefna það að ef liðið gengur vel einn daginn þá færist það upp um styrkleikaflokk og því geta menn verið að koma sér í vandræði með of góðum árangri, eins kjánalegt og það kann að hljóma.


Föstudagurinn var líka erfiður, 3 töp í þremur leikjum og þar af slátrun gegn A-liði FH gerði það að verkum að stemmingin var ögn þyngri. Ljósir punktar þó, veðrið var skárra og menn fengu að spila einn leik á Hásteinsvelli, aðalvelli þeirra ÍBV manna og sýndu þar sinn besta leik þann daginn með því að halda geysisterku liði KA manna þokkalega í skefjum og tapa aðeins 2:0. Aldrei hef ég orðið svo frægur að hafa spilað á Hásteinsvelli, en það er nú önnur saga. Þýddi samt ekkert að vola yfir þessu, eða eins og einn leikmaðurinn sagði svo skemmtilega eftir töpin þrjú: „Yes, við unnum okkur niður um styrkleikaflokk fyrir morgundaginn.“ Annars bara gott, Ísak Máni fékk eiginhandaráritun á skóinn sinn hjá Mike Riley, enska dómaranum, sem dæmdi nú reyndar ekki hjá okkur. Kíktum á sprangið, Ísak Máni lagði nú ekki í það, og svo var bara chillað en um kvöldið voru úrvalslið mótsins, Landsliðið vs. Prssuliðið að spila og svo var kvöldvaka.


Laugardagurinn var síðasti keppnisdagurinn, 4 leikir á dagskránni. Byrjuðum illa, töpuðum fyrstu tveimur en gerðum svo jafntefli við HK. Lokaleikurinn var svo við Reyni Sandgerði og náðum að kreista fram 3:2 sigur og flottur endapunktur á mótinu. Toppurinn fyrir Ísak Mána var kannski atvik sem gerðist þarna fyrir síðasta leikinn en sá leikur var spilaður á Þórsvellinum sem er alveg við golfvöllinn í Eyjum. Hermann Hreiðarsson, landsliðsmaður í fótbolta, stóð fyrir golfmóti til styrktar góðgerðarmála og þarna voru einhver íslensk íþróttaceleb að taka þátt ásamt félaga Hermanns hjá Portsmouth, Sol Campbell, fyrrverandi leikmanni Tottenham og Arsenal og margreyndur enskur landsliðsmaður. Það vildi svo skemmtilega til að hersingin var að slá á teignum sem var við völlinn hjá okkur og það var því ekki annað hægt fyrir okkur en að fórna upphituninni og taka á rás með liðið til að berja þessa snillinga augum. Ísak Máni hafði nú reynst svo gáfaður að væla það út að pabbi hans væri nú örugglega með pappírssnepil í vasanum áður en við löguðum af stað úr búðunum þarna um morguninn, svona ef ske skildi að einhver sem þénar árslaunin mín fyrir hádegi yrði á vegi okkar. Til að gera langa sögu stutta þá fékk hann párun frá Campbellnum og það sem mér fannst nú flottara þá fékk hann að stilla sér upp með kappanum fyrir eina mynd. Tær snilld.


Eftir verðlaunaafhendingu og þessháttar um kvöldið var skriðið upp í Herjólf um kl. 23:00 og við vorum að skríða upp bælið heima í Eyjabakkanum rúmlega 03:00. Sem var ótrúlega ljúft. Sváfum fram á hádegi og tókum því rólega en Sigga hafði verið í bústaðnum hjá tengdó með 2/3 af drengjunum og kom ekki heim fyrr en á sunnudagskvöldið. Maður er nú búinn að vera hálftuskulegur í dag líka, ekki slæmt að vera í sumarfríi.


Heilt yfir allir sáttir með Eyjamótið, að mörgu leyti erfitt en meira gaman.

2 ummæli:

Jóhannan sagði...

Ísak er flottastur en ekki hvað...

Nafnlaus sagði...

Flott að mótið tókst vel og að menn séu sáttir við árangurinn. Svo hlýtur það að vera toppurinn að hafa fengið mynd og áritun frá Campbell - frábært

kv,
Gulla