fimmtudagur, febrúar 24, 2011

Frídagurinn í dag

07:09 Rumska við það að Daði Steinn er vaknaður. Vippa honum upp í rúm til mín og fæ smá kúr og eyrnastrokur. Ómetanlegt.

07:19 Drengurinn kominn fram til mömmu sinnar en ég heyri að hann harðneitar að leyfa henni að gefa sér hafragraut, pabbi verður að græja. Svo framúr fer karlinn.

08:00 Mamman fer með Daða Stein til dagmömmunnar, starfsdagur í Breiðholtsskóla þannig að Ísak Máni og Logi Snær eru í frí og ég ákvað að taka mér frídag líka. Skríð aftur upp í rúm.

08:25 Hendi mér í sturtu.

08:50 Ísak vaknaður en ég þarf að ýta við Loga.

09:15 Menn búnir að borða, Ísak farinn að læra og Logi fær að kíkja í tölvuna. Ég kíki yfir blöðin og reyni svo að laga aðeins til á heimilinu.

10:48 Komum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, okkur langaði til að skoða nýju sýninguna þar sem boðið er upp á skriðdýr og froskdýr til skoðunar. Nokkuð flott bara.

11:31 Rigningarsuddi og lítið annað spennandi í garðinum þannig að eftir lítinn hring yfirgefum við svæðið.

11:46 Komnir upp á Stjörnutorg í Kringlunni, Ísak með Subway og Logi með Dominos margaritu, ég með valkvíða og fæ mér ekki neitt. Við í algjörum minnihlutahóp, þ.e. ekki nemendur í Versló. Jökull hennar Guðrúnar á næsta borði.

11:57 Tommi frændi hringir í mig og tilkynnir mér að hann sé að koma í bæinn til að fara á útgáfutónleika hjá Skálmöld um kvöldið. Vegna forfalla er hann með aukamiða og spyr hvort ég vilji koma með. Ég er mjög klár í það en var búinn að lofa mér í tökur á einhverju grínefni vegna árshátíðarinnar í vinnunni. Segi honum að ég ætli að finna eitthvað út úr þessu.

13:03 Leggjum af stað heim, búnir að versla fyrir Ísak Mána út á inneignarnótuna sem hann fékk í Outfitters Nation og Logi Snær fékk einhvern bol í Hagkaup sem ég verð klárlega að skipta aftur. Stundum er erfitt að vera misskilda miðjubarnið og mjög oft er erfitt að skilja misskilda miðjubarnið.

13:11 Komnir heim og ég, þessi með valkvíðann, fæ mér eitthvað að borða. Ísak Máni hendir einhverju smotterí í sig líka svona svo hann fari ekki svangur á körfuboltaæfingu.

14:06 Skúli mættur á svæðið og ætlar að fá far á upp í Seljaskóla á körfuboltaæfingu. Ég kem öllu liðinu út í bíl og skutla Ísaki og Skúla uppeftir og svo förum við Logi Snær beint að sækja Daða Stein til dagforeldranna.

14:37 Kominn aftur heim, reyni að koma einhverju ofaní Daða og Loga, gengur ekkert sérstaklega. Tommi hringir aftur og spyr hvort ég sé ekki örugglega klár fyrir kvöldið. Ég segist mæta.

14:42 Sendi póst á yfirmann skemmtiefna í söludeildinni og segi hvernig málin eru stödd, ég sé off í þessar kvikmyndatökur. Var í svo litlu hlutverki að ég held að það hafa verið hægur leikur að skrifa karlinn út.

15:11 Búinn að græja Loga Snæ fyrir fótboltaæfingu og fer með hann og Daði Steinn fylgir vitaskuld með. Aftur er ferðinni heitið upp í Seljaskóla.

15:30 Æfingin byrjar og við Daði Steinn erum bara að dunda okkur á meðan.

15:35 Gemsinn hringir, gjaldkeri húsfélagsins á línunni og hún er að fara yfir með mér, formanninum, uppgjörsmál vegna framkvæmdanna sem við höfum verið að standa í.

15:58 Varla búinn að skella á þegar Sigga hringir. Hún er enn í vinnunni en minnir mig á að það þurfi eitthvað að græja varðandi kvöldmatinn, hakkið klárt í ísskápnum en annað ekki.

16:09 Ísak Máni kemur til okkar úr píanótímanum sem hann er í upp í Seljaskóla, strax á eftir körfuboltaæfingunni sinni.

16:30 Fótboltaæfingin búin hjá Loga, við fjórir komum við hjá Braga í Leiksport og sækjum nýja ÍR æfingargallann hans Loga sem var í merkingu. Ísak Máni sér drögin að nýju ÍR fótboltatreyjunni fyrir sumarið, hann er greinilega ekki jafnhrifinn af bláu ermunum og ég. Tökum hraðferð í Bónus í leiðinni, ákveðið að píta verði í matinn.

17:06 Komum heim. Logi Snær vill fara út að hjóla og Ísak Máni ákveður þá að hann ætli að fara á fótboltaæfinguna sína, sem byrjar klukkan sex, hjólandi.

17:17 Ég fer niður í kjallara og yfirfer dekkin á hjólinu þeirra, þarf aðeins að pumpa í dekkin hjá Ísaki Mána.

17:22 Sigga kemur heim.

18:21 Ég fer í það að elda kvöldmatinn.

18:37 Kvöldmatur hjá okkkur mínus Ísak Máni sem verður að borða þegar hann kemur heim.

19:12 Geng frá flestu af eldhúsborðinu, annað verður á bíða og við Logi og Daði tökum smá Star Wars geislasverðaleik.

19:29 Legg af stað niður í Tónabíó þar sem tónleikarnir verða.

20:16 Sestur niður ásamt Tomma og co og bíð slakur eftir því sem verða vill.

21:52 Kem út eftir alveg magnað gigg og er með gæsahúð alla leiðina heim.

22:07 Næ restinni af 10-fréttum í sjónvarpinu áður en tekið er úr þvottavélinni sem konan hafði sett í og svo var uppþvottavélin líka búin þannig að það var lítið annað en að taka úr henni líka.

23:57 Finn að suðið var ansi hressilegt eftir tónleikana er að minnka í eyrunum, búinn að henda upp þessu bloggi og fer þá að tannbursta mig og skríð svo upp í bælið.

1 ummæli:

Villi sagði...

Þetta er fín lýsing á dæmigerðum degi þeirrar starfsstéttar sem fyrir löngu síðan nefndist BH