laugardagur, júlí 14, 2012

Aðeins meira af 19:0 leiknum

Sem sérstakur áhugamaður um 3. deildina í knattspyrnu, sérstaklega þá sem snýr að minni gömlu heimabyggð þá er ekki leiðinlegt að hafa orðið vitni af stærsta sigri liðsins í sögunni, þeim stærsta svo um munar.  Eftir smá sagnfræðigrúsk þá kom í ljós að stórsigrarnir hafa nú ekki verið gríðarlega miklir í gegnum tíðina.  Lengi vel var 5:0 sigur gegn USVH í gömlu 3. deildinni (C-deild) árið 1976 stærsti sigurinn.  Eftir sumarið 1987 varð hlé á þátttöku liðsins þangað til sumarið 2010 en 2011 vannst 8:1 sigur á Afríku og var ég á svæðinu þá en ég held svei mér að menn hafi ekki gert sér grein fyrir að það væri stærsti sigurinn í sögunni þá.  Þessi 19:0 sigur gegn Snæfelli fer sem sagt í sögubækurnar sem sá stærsti.  Bara svona til fróðleiks þá er stærsta tap klúbbsins 0:9 gegn HV í 3. deild (C-deild) 1981.

Nokkrir punktar um metleikinn:
  • Markvörður Grundfirðinga, Ingólfur Örn Kristjánsson, sem var m.a. annars kosinn efnilegasti leikmaður Grundfirðinga síðasta sumar og hefur verið á mála hjá Víkingi Ólafsvík, hefur verið að glíma við axlarmeiðsli.  Axlarmeiðslin hafa gert það að verkum að hann hefur ekki getað spilað í marki en var settur í framlínuna í síðasta leik fyrir leikinn gegn Snæfell, 3:0 tap gegn Kára.  Aftur fékk hann tækifæri og setti 7 mörk í þessum leik, sem verður að teljast gott hjá formlegum markverði.  Reyndar er ég harður á því að hann hafi sett 8 kvikindi en að það hafi eitthvað skolast til í bókhaldi hjá ágætum dómara leiksins og kunninga mínum, Halldóri Breiðfjörð.  En 7 eru skráð á hann síðast þegar ég vissi, það verður að duga honum.
  •  Í hálfleik þegar staðan var 11:0 notaði Snæfell annan af tveimur varamönnum sínum og skipti um markvörð.  Sá sem kom inná stóð sig bara nokkuð vel þrátt fyrir að mitt nef segi mér að hann sé ekki mikið menntaður í fræðunum.  Hann var 15 ára, tveimur árum eldri en Ísak Máni.
  • Ásgeir Ragnarsson kom inná á 78. mínútu leiksins fyrir Grundfirðinga.  Hann er 48 ára og var að spila sinn fyrsta deildarleik síðan þarna á 9. áratug síðustu aldar.  Sonur hans var líka inná.
Annars er nú þátttaka Snæfells í þessu móti alveg efni í nýjan pistil.  Ég skal hundur heita ef í næsta riti af Íslenskri knattspyrna verði ekki bróðurpartur liðanna úr C-riðli 3.deildar með skráðan stærstan deildarsigur í sögunni gegn Snæfelli árið 2012.  Liðið er svo langt frá því að vera samkeppnishæft, tel meira að segja að það myndi varla gera mikla lukku í utandeildinni.  Þessi frétt á Vísir sem kom í dag finnst mér koma kjánalega út fyrir Snæfellsmenn, fyrir mitt leyti er þetta hætt að vera fyndið og ég get ekki séð til hvers góðs þessi þátttaka á að vera.  9 leikir búnir og allir tapaðir með markatöluna 0:124!  Menn hljóta að gera tilkall til þess að vera mögulega lélegasta lið í sögu deildarkeppninnar á Íslandi.
Nei, þá er nú betur heima setið.

Engin ummæli: