fimmtudagur, júlí 19, 2012

Útilega á Suðurlandi

Kominn heim eftir smá útilegutúr.  Komum heim úr Grundarfirðinum á laugardeginum og héldum í túrinn á sunnudeginum.  Redduðum okkur fellihýsi hjá góðu fólki og eftir hraðnámskeið í meðferð á svona græju var ekkert annað að gera en að drífa sig bara af stað, á meðan við höfðum veðrið enn með okkur í liði.
Haldið var í austurátt eftir suðurlandinu með mjög grófa ferðaáætlun, þetta átti svolítið að ráðast bara.  Karlinn var með smá hnút enda ekki á hverjum degi með eitt stykki tonn í eftirdragi.  Þetta gekk nú allt saman vel, ég fann alveg fyrir þessu en V6 vélin var samt alveg í góðum gír.  Alla vega þá enduðum við á tjaldsvæðinu í Vík og komust að því á bílastæðinu þar að Sprunguvinir með Ingu og Gunna innanborðs voru á svæðinu.  Komum okkur fyrir á álitlegum stað og tókum því bara rólega þann daginn.

Daði og Hekla í Vík
 Á mánudeginum fór við rúnt og kíktum upp í Þakgil, hefði nú ekki lagt í það með fellihýsið í eftirdragi.  Svo var bara farið í sund í Vík, grillað og chillað.
Á þriðjudeginum var pakkað saman í Vík.  Áður en við létum okkur hverfa þaðan var skroppið í Reynisfjöru og kíktum á Hálsnefshellir og Reynisdranga.

Daði Steinn, Logi Snær og Ísak Máni í Reynisfjöru
Þaðan var ferðinni heitið að Seljalandsfossi, á tjaldsvæðið að Hamragörðum.  Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá Skógarfossi og tókum allar 384 tröppurnar upp.  Þegar við vorum búin að finna okkur stað fyrir "kerruna" eins og Daði kallaði græjuna á Hamragörðum þá lentum við í smá tæknilegum vandamálum.  Ákveðið var þá að skottast á Hvolsvöll og redda okkur nánari verkfærum en nota tækifærið og skella okkur í sund og taka sveitta máltíð á vegasjoppu í leiðinni.  Þegar aftur var komið voru tæknilegu vandamálin leyst og græjunni smellt í rafmagn.  Þá var kvöldsólin notuð til að kíkja fyrst inn í Gljúfrabúa sem var nokkuð magnað.  Sáum svo að lítið var um bíla á stæðinu hjá Seljalandsfossi og drifum við okkur því bara að taka röltið þarna bak við.  Sigga og Daði Steinn tóku þetta reyndar bara að utan en við hinir tókum þetta alla leið.  Varla kjaftur á sveimi en á nánast öllum öðrum tímum á meðan við vorum þarna var bílastæðið nánast alltaf kjaftfullt og 2-3 rútur staðalbúnaður.

Ísak Máni og Logi Snær bak við Seljalandsfoss
Daði Steinn og Seljalandsfoss séð að framan
Þegar þarna var komið við sögu var farið að þyngjast yfir veðurspánni.  Hugmyndir höfðu komið upp að fara yfir til Vestmannaeyjar þarna á miðvikudeginum en við ákváðum að eiga það bara inni.  Á miðvikudeginum var dótinu pakkað saman í takt við rigningardropana og haldið heim á leið.  Stoppað á Selfossi til að fá sér í gogginn en þar var algjört úrhelli.  Það var nú léttara yfir Reykjavík þegar við skiluðum fellihýsinu af okkur.
Allir bara þokkalega sáttir, flestir hefðu nú líklega getið haldið lengur út en það var samt engin stemming fyrir rigningunni.

Engin ummæli: