sunnudagur, ágúst 19, 2012

Að einhverju leyti menningarlegt

Maraþon og menningarnótt að baki.  Ekki það að ég hafi reimað á mig hlaupaskóna en Sigga tæklaði þetta, tók 10 km eins og í fyrra og bætti tímann sinn frá því þá um einhverja 1-2 mínútur held ég og náði þessu á ca 55 mínútum.  Ég varð fyrir svipuðum áhrifum og í fyrra, skemmtileg stemming og sjálfsagt gaman að taka þátt í þessu en ekki enn kveikt það mikið í mér að ég sé farinn að æfa fyrir þetta.  Maður er svo klikkað að ég þyrfti að gera eitthvað aðeins meira og öðruvísi en það sem telst normið.  Tæki þetta aldrei nema að fara hálft maraþon, það er bara þannig.  Spurning hvað maður gerir árið 2015, þegar maður verður kominn með fjóra tugi undir beltið og kominn í 40-49 ára flokkinn.
Sigga rétt fór heim til að skola af sér mesta svitann eftir hlaupið áður en hún hélt með Daða Stein ásamt Ingu og Heklu í Baulumýri til að sækja Loga Snæ sem hefur síðan á mánudag verið í sveitasælunni í brakandi blíðu, en þau komu svo öll heim í dag.  Við frumburðurinn voru því allt í einu einir og yfirgefnir í kotinu á menningardaginn sjálfan.  Ákváðum að kíkja aftur á miðbæinn um miðjan daginn, fórum eftir öllum helstu tilmælum og tókum smekkfullan strætisvagn niður í bæ.  Röltum aðeins um í blíðunni og tókum púls á stemmingunni án þess að vera búnir að gera eitthvað plan.  Við gengum bara á þá tóna sem okkur leist á og létum þetta ráðast.  Ís og Hlölli var sett á tankinn.  Skelltum okkur aftur heim fyrir kvöldmatarleytið í álíka þéttsettnum strætó og fyrr um daginn.  Vorum bara slakir heima um kvöldið, gengnir upp að hnjám nánast.
Skelltum okkur í sund í dag og reyndum að hafa ekki of mikið fyrir hlutunum, sem er stundum déskoti fínt.

Engin ummæli: