miðvikudagur, ágúst 29, 2012

Á botninum

Ég skrapp á völlinn síðastliðinn föstudag, Valbjarnarvöll nánar tiltekið, þar sem Þróttur tóku á móti ÍR.  Fyrsti leikur nýja þjálfarans eftir að sá gamli var látinn fara en það dugði ekki til, mínir menn með 0:1 tap og miðað við önnur úrslit sem voru í gangi eru menn allt í einu komnir kyrfilega í botnsætið.  Ískaldur raunveruleiki og ég er varla að trúa þessu en 6 tapleikir í röð eru víst ekki vænlegir til árangurs.  Held að þeir séu búnir að skora heil 2 mörk í þessum síðustu 6 leikjum og þar af var annað í boði andstæðinganna í formi sjálfsmarks.  Skil ekkert í mönnum að hafa ekki fengið gamla ÍR-inginn, Eið Smára, til að taka nokkra leiki fyrir gamla klúbbinn sinn, svona fyrst hann er að leita sér að liði.
4 leikir eftir og það fer að styttast í að menn þurfa að leggja inn feita pöntun hjá kraftaverkalínunni, fjandinn sjálfur.  Ég geri mér grein fyrir því að ÍR er ekki stærsta nafnið í boltanum en að ætla að spila í 2. deild á næsta ári, fjárinn...  Menn mokuðu sér upp úr þeirri deild hérna um árið með herkjum þegar fjölgað var í 1. deildinni ef ég man rétt, andsk... niðurgangur.
Ég hugsa svo með hryllingi að litli smáklúbburinn í póstnúmeri 111 er þarna í kjallarabaráttunni líka, það gæti farið svo að Breiðholtið eins og það leggur sig færi niður um deild, hönd í hönd.  Við erum að ræða um það að í lokaumferðinni er Leiknir - ÍR, leikur sem gæti skipt öllu máli.  Það næstversta sem gæti gerst í stöðunni væri að ÍR væri fallið fyrir þennan leik en Leiknir ekki og að þeir myndu svo bjarga sér.  Það allra versta, by-far, væri að lenda í einhverju úrslitaleik í efra-Breiðholti og tapa honum og falla.  Að falla niður í 2.deild í póstnúmeri 111 af öllum stöðum.  Shit, mér verður hreinlega óglatt af tilhugsunni.En núna er ég farinn að mála framtíðina í kolsvörtum lit, við verðum bara að taka klisjuna á þetta og taka næsta leik.  Haukar á heimavelli á föstudaginn og þar verða menn að gjöra svo vel að bretta upp ermar.

Sem betur fer styttist í upphafið á körfuboltatímabilinu.  Ég ber trú til þess að þar muni geðheilsu minni verða bjargað.

3 ummæli:

Tommi sagði...

Áfram Grundó...

Villi sagði...

Ekki skánaði staðan hjá Breiðhyltingum eftir 19. umferðina. Fimm stig í þriðja neðsta lið fyrir Leikni og sjö stig fyrir ÍR. Erfitt að sjá hvernig bæði lið eiga að bjarga sér frá falli. En lokabaráttan verður örugglega spennandi.

Tommi sagði...

Mér þykir leiðinlegt að segja það en ég vona að Víkingur Ól vinni ÍR á laugardaginn... No hard feelings ;)