fimmtudagur, september 13, 2012

Körfuboltalandsleikir

Man ekki eftir því að hafa farið á landsleik í körfubolta fyrr en núna síðla sumars, það gæti svo sem verið misminni.  Landsliðið hefur jú nánast legið í dvala síðustu ár sem skýrir þetta að einhverju leyti, leiðir mínar á körfuboltaleiki hafa fyrst og fremst náð einhverjum hæðum síðustu 3-4 árin.
En KKÍ menn spýttu í lófa og dustuðu rykið af þessu ásamt því að nýtt fyrirkomulag, a.m.k. á undankeppni EM var kynnt til sögunnar.  Það þýddi 10 landsleikjahrina með 5 heimaleikjum fór fram á rétt tæpum mánuði.  Menn geta haft sínar skoðanir á þessu formi en það voru a.m.k. alvöru körfuboltamenn að kíkja á svæðið, svo mikið varð ljóst.  Ég verslaði mér passa á alla leikina og var yfirleitt í hlutverki andarpabba einhverja drengja hérna úr hverfinu.  5 leikir og 5 töp, það gengur bara betur næst.

14. ágúst  Ísland - Serbía  78:91
Fyrsti leikur liðsins í keppninni og það var þokkalega þétt setið í Laugardalshöllinni.  Massasterkir andstæðingar en með mikilli baráttu náði íslenska liðið flottum leik.

21. ágúst  Ísland - Ísrael  83:110
Áttum aldrei möguleika í öfuga Ísraela.  Hérna var eitt af aðalmálunum að fá áritun hjá Omri Casspi, leikmanni Cleveland Cavaliars.  Ísak Máni mætti í Cleveland peysunni sinni og hann og Logi Snær voru mættir með mynd af kappanum og penna.  Það hafðist og er komið í safnið.

27. ágúst  Ísland - Eistland  67:86
Eitthvað andleysi í gangi og þetta varð aldrei neinn leikur.

2. september  Ísland - Slóvakía 84:86
Unnum þá á útivelli og menn voru að gæla við að hérna væru menn að verða vitni af sigurleik.  Spennan var mikil en boltinn rúllaði af körfuhringnum við síðasta skot Íslands þegar bjallan gall og sárt tap staðreynd.  Menn loksins búnir að átta sig á því að mæta með trommu í kofann.

8. september  Ísland - Svartfjallaland  92:101
Ekki áttu menn von á nokkrum sköpuðum hlut hérna enda gestirnir á toppnum og búnir að vinna alla leikina.  Eitt af markmiðunum var að bæta annarri NBA áritun í safnið en því miður lét leikmaður Minnesota Timberwolves, Nikola Pekovic, ekki sjá sig á klakanum.  Hvort það hvar hlutur af einhverju vanmati skal ekki segja en Ísland fór hamförum og var með 22ja stiga forystu í hálfleik.  Svartfellingar söxuðu hinsvegar á forystuna og náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.  Menn voru frekar súrir eftir þetta.

Engin ummæli: