laugardagur, mars 20, 2010

Dagsetning í barnabókhaldið

Stórfjölskyldan fór í sund í dag. Fréttin í því er að þetta var í fyrsta sinn sem Daði Steinn fór í sund, 6 dögum fyrir 1 árs afmælið sitt. Veit ekki hvort maður er að verða kærulausari með hverju eintakinu.
Afslappaðri? Kannski, en líklega meira bara kærulausari, þetta er ekki nokkur frammistaða.

sunnudagur, mars 14, 2010

Saltkringla og flautukarfa

Lítil dæmisaga úr Breiðholtinu um það hvernig átrúnaðargoð verða til:

Ég og frumburðurinn fórum á körfuboltaleik á föstudaginn, skelltum okkur upp í Grafarvog til að sjá ÍR spila við Fjölnir. Gengi okkar manna verið frekar dapurt í vetur og fyrir þennan þriðja síðasta deildarleik vetursins var ljóst að allt þarf að ganga upp ætli menn sér að skríða inn í úrslitakeppnina og fall í 1. deildina var einnig tölfræðilegur möguleiki.

Klúbburinn hóf tímabilið útlendingslaust en fengu til sín Kana fljótlega eftir áramótin. Sá stóð ekki undir væntingum og var sendur heim fljótlega en nýr var kallaður til. Svo skemmtilega vill til að þjálfari meistaraflokks ÍR er einnig þjálfarinn hans Ísaks Mána og þegar Ísak fór á æfingu ekki fyrir löngu þá tilkynnti þjálfarinn honum að það væri kominn nýr gaur á æfingu. Þessi nýji var sem sagt nýji Kaninn, Robert Jarvis. Ísaki fannst ekki lítið sport að hafa þennan gaur á æfingu þótt hann væri víst bara að hanga þarna. Bauð Ísaki saltkringu þegar hann sat þarna á bekknum en í þann mund sendi þjálfarinn Ísak inná völlinn aftur, maulandi á saltkringlu sem var víst ekki alveg að gera sig. En að geta sagt þessa sögu þegar heim var komið eftir æfingu var alveg priceless.

En aftur að leiknum á föstudaginn, ÍR leiddi megnið af fyrri hálfleik en missti heimamennina framúr sér rétt fyrir hlé. Þeir héldu svo forystunni þangað til í blálokin en með lygilegum lokakafla þar sem við feðgarnir fengum tvær 3ja stiga körfur undir lokin frá saltkringlumanninum snerist dæmið við og eins stigs sigur staðreynd. Síðari þristurinn var flautakarfa takk fyrir.

Syni mínum finnst Robert Jarvis vera snillingur.

fimmtudagur, mars 04, 2010

Alvöru sambönd

7:38 Var enn hálfkrumpaður ofan í Cheerios skálinni þegar Ísak Máni, sem er á þessum tímapunkti að taka fréttanetrúntinn sinn fyrir skóla (nba.com og fótbolti.net), kallar á mömmu sína. Ég heyri nú ekki hvað þeim fer á milli en heyri það svo þegar ég er að fara út um dyrnar að hann var að segja mömmu sinni að það væri mynd af henni á fótbolti.net.

8:23 Ég er mættur niður í vinnu, búinn að næla mér í fyrsta kaffibollann og er að opna tölvupóstinn og önnur helstu forrit sem maður þarf til að selja fullt af Cocoa Puffs kúlum. Kíki á fótbolti.net til að sjá herlegheitin, sé að það er verið að auglýsa hið árlega Drottingarmót ÍR, fótboltamót uppgjafa knattspyrnukvenna á óræðum aldri. Myndin sem birtist með fréttinni er frá gullaldarliði ÍR sem tók þátt 2007, þegar Sigga stóð í rammanum. Meðal annarra drottninga sem tóku þátt og voru því vitaskuld á myndinni var Rúna hans Tomma frænda. Fréttina er hægt að sjá -HÉR-

8:25 Mér fannst þetta töff en tók samt nett andvarp og sendi Tomma stuttan tölvupóst sem innihélt það sem ég var að hugsa: Hvenær fáum við mynd af okkur á fótbolti.net?

8:56 Tommi svarar tölvupóstinum og fullyrðir við mig að ég þurfi ekkert að óttast, það muni gerast fyrir helgi.

9:42 Ég kem út af fundi, sé póstinn frá Tomma og er ekki alveg að fatta en spái svo sem ekkert meira í það.

13:07 Tommi sendir mér annan póst með link inn á nýlegri frétt á fótbolti.net og spyr einfaldlega: Sáttur??? Þá frétt er hægt að sjá -HÉR-


Þannig að innan við 4 tímum eftir að ég sendi Tomma tölvupóstinn og 18 fréttum eftir Drottningafréttina var kominn mynd af mér á fótbolti.net.

Þetta heitir að vera með sambönd.

mánudagur, mars 01, 2010

sunnudagur, febrúar 28, 2010

Fullgildur kjúklingur

Alltaf lætur maður plata sig í einhverja vitleysu. Eins og ég fór yfir á þessum vettvangi þá lét maður troða dómaraflautu upp í trantinn á sér um daginn. Ég vissi það þegar ég bauð mig fram í þetta hlutverkið að ég væri að grafa mig ofan í einhverja holu sem gæti orðið erfitt að komast upp úr.

Það fór líka svo að mér var bent á að það væri kannski ekki vitlaust að taka bara svokallað unglingadómarapróf en það gefur réttindi til að dæma eitthvað upp eftir unglingaflokkunum. Helstu fríðindi, ekki voru það launin sem öskruðu á mann, eru að með löglegt skírteini kemst maður inn á knattspyrnuleiki sumarsins án þess að greiða fyrir það. "Þetta er ekkert mál, rúmlega 2ja klst fyrirlestur eina kvöldstund og svo próf viku seinna" var mér tjáð. Ég lét til leiðast, mætti á fyrirlesturinn ásamt 3 öðrum feðrum á mínu reiki og öllum kjúklingum sem æfa með 3ja flokki ÍR. Stemmingin var ansi sérstök, svolítið eins og ég væri kominn í fyrsta bekk í menntó. Fyrirlesturinn sjálfur var nú ekkert stórmál en ég fékk reyndar nett sjokk þegar ég kom heim eftir fyrirlesturinn og fór að kíkja á lesefnið á netinu. Fleiri tugir blaðsíðna sem innihéldu skraufþurrar reglugerðir, greinagerðir og túlkunaratriði. Vissi að ég hefði aldrei meikað að fara í lögfræðina eins og Varði var að meina að ég hefði átt að gera hérna í den.

Mætti í prófið og komst þá að því að þetta var krossapróf, sem mér fannst að einfaldaði málið aðeins þótt það sé ekki algilt um krossapróf. Hvað um það, karlinn klóraði sig í gegnum það og telst nú fullgildur kjúklingur í dómarastéttinni. Get ekki sagt að þetta sé eitthvað heillandi, 5. flokkur á hálfum velli sleppur kannski alveg en ég ætla ekki að taka 11 manna boltann á þetta, þar hef ég ákveðið að draga mörkin.

laugardagur, febrúar 27, 2010

Snjór!

Það var loksins að menn fengu einhvern vetur hérna megin. Tveir elstu drengirnir ákváðu að kíkja betur á þetta og skemmtu sér konunglega hérna úti í garði í dag. Mér skilst að sumir á Akureyri séu alveg komnir með upp í kok af hvíta stöffinu enda verið úthlutað víst talsvert fleiri þannig dögum en Reykjavík og nágrenni.


laugardagur, febrúar 20, 2010

mánudagur, febrúar 15, 2010

Smá mont

Ég verð aðeins að monta mig. Vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í með þessu skólabrölti en það gekk svona déskoti vel. Átti ekki alveg von á þessu en er helsáttur.

Tekið af vef Háskólans í Reykjavík, fréttina má sjá með því að smella -HÉR-:

Útskrift úr diplómanámi Opna háskólans

15.2.2010

Föstudaginn 12. febrúar s.l. voru 17 nemendur útskrifaðir úr diplómanámi Opna háskólans. Flestir þessara nemenda hófu nám vorið 2009. Sjö nemendur útskrifuðust úr diplómanámi í markaðsfræði og tíu nemendur úr diplómanámi í verkefnastjórnun sem kennd var í fjarnámi í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands.

Tveir útskriftarnemar fengu bókina Perlur Laxness í verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur,

Davíð Hansson Wíum, diplómanám í markaðsfræði

Einar Jóhannesson, diplómanám í verkefnastjórnun

Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri Opna háskólans útskrifaði nemendurna og hvatti þá til að líta á þennan áfanga sem nýtt upphaf.

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Halló...


Menn eru farnir að pikka upp ýmsar athafnir

sunnudagur, febrúar 07, 2010

WÍUM #23

Ísak Máni var að keppa í körfubolta á laugardaginn í Hveragerði. 3ja mótið af 4rum á þessu tímabili á vegum KKÍ í þessum svonefnda minniboltaflokki. Drengurinn var reyndar búinn að vera hálfslappur, sleppti skólanum á föstudeginum en þrátt fyrir það kom aldrei annað til greina en að taka þátt í þessu móti að hans hálfu. Það átti m.a. að vígja nýja búninginn sem hann fékk í jólagjöf.
Undirritaður var búinn að leigja sér sérstaka linsu á nýju myndavélina sem átti að henta betur við þessi erfiðu birtuskilyrði sem alltaf eru í svona íþróttahúsum. Canon 50mm EF 1.4 fyrir þá sem vilja vita það nánar. Enda kom í ljós að þessi linsa réð miklu betur við þessar aðstæður en þessi hefðbundna kit-linsa. Auðvitað hefði maður kosið að hafa zoom möguleikann en þá var þetta bara spurning um staðsetningarnar hjá karlinum. Óljóst hvaða græjuútfærslu menn fara út í fyrir næsta mót, ég kalla þetta að fikta sig áfram.

Til upplýsingar þá eru þesi mót þannig að liðunum eru skipt upp í 4ra liða riðla sem virka eins og deildir, þ.e. efsta liðið fer upp um riðil á meðan það neðsta fer niður í þann næsta fyrir neðan eftir hvert mót. Hin tvö mótin fyrir þetta mót höfðu gengið svona upp og ofan en núna um helgina small þetta næstum því. Sigur á móti Hamri og Þór Akureyri kom sterkt inn en tap í framlengingu gegn Njarðvík var nóg til að missa þá grænklæddu í efsta sæti riðilsins. Svaðalegt hvað svona spennuleikir geta gert manni. 10-11 ára gamlir strákar að spila körfubolta og ég þurfti nánast á sprengjutöflum að halda. Gaman að þessu.

-Klikka á myndirnar til að stækka-





Til þeirra sem fóru með allt til helv...

Rak augun í nýjan lið á launaseðlinum mínum um daginn: Hátekjuskattur.

Hljómar bara nokkuð töff, ég hlýt klárlega að vera gera eitthvað rétt og væntalega í góðum málum. Ég meina, HÁTEKJUskattur.

Bara eitt sem ég er ekki alveg að skilja. Ég bý í 90 fm blokkaríbúð og á 11 ára gamlan bílskrjóð sem gengur bara af gömlum vana, bara rétt svo. Túbusjónvarpið er á sínum stað í stofunni og fellihýsið var aldrei í myndinni.

Ég hef engin tengsl við penthouseíbúðir í Notting Hill og gæti ekki bent á Tortolaeyjar á korti til að bjarga lífinu.

Frábært.

Takk.

laugardagur, febrúar 06, 2010

FC Grundarfjörður

Tekið af Fótbolti.net:

Æfingaleikur: KFK sigraði Grundafjörð

KFK 5 - 3 Grundarfjörður
1-0 Guðmundur Atli Steinþórsson
1-1 Hermann Geir Þórsson
2-1 Hafþór Jóhannsson
2-2 Almar Björn Viðarsson
3-2 Guðjón Ólafsson
3-3 Heimir Ásgeirsson (Víti)
4-3 Guðmundur Atli Steinþórsson
5-3 Guðmundur Atli Steinþórsson

KFK (HK 3) sigraði Grundarfjörð 5-3 í æfingaleik í Akraneshöllinni í gærkvöldi.

Bæði þessi lið munu spila í 3.deildinni í sumar en Grundfirðingar eru með að nýju eftir langt hlé.

Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði þrennu fyrir KFK í gær en hann misnotaði einnig vítaspyrnu í leiknum.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=86920#ixzz0fQu2qUcj


Maður varð þeim heiðri aðnjótandi að fá að taka þátt í þessum æfingaleik í gær sem markaði í raun upphaf þátttöku Grundarfjarðar í 3. deildinni í sumar. Smá hnútur í karlinum enda fyrsti 11 manna leikurinn hjá undirrituðum í einhverja 6 mánuði og að auki voru þeir ekki margir leikirnir sem ég spilaði síðasta sumar. Einnig var maður nú ekki alveg að þekkja öll þessi andlit sem voru í búningsklefanum.
Tap í fyrsta leik og þokkalega sáttur við frammistöðuna en svo sem aldrei sáttur við að fá á sig 5 mörk. En karlinn náði að verja víti, annars frekar slakt víti en það þarf víst að verja þau líka. Maður hafði því alveg mátt fá nafnið sitt í fréttina góðu.


Byrjunarliðið: Elinbergur Sveinsson, Hermann Geir Þórsson, Jón Frímann Eiríksson, Axel Freyr Eiríksson, Hrannar Már Ásgeirsson og undirritaður.
Heimir Þór Ásgeirsson, Ragnar Smári Guðmundsson, Ingi Björn Ingason, Tryggvi Hafsteinsson og Przemyslaw Andri Þórðarson.

sunnudagur, janúar 31, 2010

Go Eiður

Auðvitað styð ég þennan færasta knattspyrnumann þjóðarinnar. Hann má samt alveg vera rólegur á móti Man U.

laugardagur, janúar 30, 2010

Fréttablaðið í dag

Ég gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar ég sá nafnið hans Varða á forsíðu Fréttablaðsins í morgun í tengslum við EM í handbolta. Hann hefði fílað það.
Bara verst að við gátum ekki tekið þennan undanúrslitaleik á móti Frökkunum.

laugardagur, janúar 23, 2010

Atburðir næturinnar

Nokkrum andartökum áður en klukkan sló miðnætti heyrðist dynkur úr herbergi Loga Snæs og í kjölfarið skaðræðisöskur. Foreldrar hans orðnir háaldraðir og komnir inn í draumaheima þrátt fyrir að um sé að ræða föstudagskvöld.
Við stöðuathugun kom í ljós blóðugur krakki í hálfgerðu sjokki og heilmiklum kvölum. Atburðarrásin hafði verið sú að hann hefur velt sér úr rúminu sínu og stungið sér með hausinn á lampagrey sem var á gólfinu fyrir neðan, með eyrað á undan sér nánar tiltekið.
Kallað var á Guðrúnu frænku sem tók að sér að vera fylginautur niður á Slysó ásamt mömmu hans. Allt gekk vel, engir sauðdrukknir skemmtanafíklar mættir á svæðið og hægt að taka strax við Loga Snæ. Rétt rúmlega eitt var hann kominn heim aftur undir sæng.
Núna er hann markaður eins og rollurnar hjá vini hans Friðgeiri á Knörr, heilrifa á hægra eyra. Verst með lampagreyið.



sunnudagur, janúar 10, 2010

„DÓMARI!“

Sá framundan flott tækifæri til að prufa nýju myndavélina. Ísak Máni var að keppa æfingaleik í gær í fótbolta og maður horfði til þess. Þegar dró nær helginni var þó greinilegt í hvað stefndi, rigning og rok. Ekkert rosalega spennandi.

Kom líka á daginn að það sem þetta var heimaleikur þá var undir okkur ÍR-ingum komið að redda dómurum, sem eru víst oftast einhver foreldragrey. Þegar þriðji hóptölvupósturinn kom frá yfirmanni dómaramála um neyðarkall þá fannst mér ég ekki getað skotið mér undan ábyrgðinni og bauð mig fram í verkið. Enda ekkert veður til að vera þvælast með nýju myndavélina.

2 x 20 mínútur á hálfum velli, 14 stykki af 10 ára strákum, dass af foreldrum á hliðarlínunni og einn dómari að stíga sín fyrstu skref í bransanum en ekki með neina pappíra um að hann væri hæfur til verksins. Yfirburðarsigur hjá gestunum í Þrótti og ekki hægt annað en að hughreysta frumburðinn með því að í þetta skiptið væri í lagi að kenna dómaranum um allt saman.

Glórulausir innkastdómar í gangi þarna og þessar fjórar aukaspyrnur allar útúr korti.

mánudagur, janúar 04, 2010

Byrjaður að vinna niður aðgerðarlistann

Fann mér notaða græju í Hlíðunum. Helsáttur og mig grunar að konan hafi lúmskt gaman af þessu líka. Nú er bara að fara að fikta, ég held að Tommi frændi sé að koma í mat um helgina.
Skekkir aðeins fjárhaginn, mætti halda að það væri enn 2007 á þessu heimili. Spurning hvort það þurfi að fresta giftingunni...

sunnudagur, janúar 03, 2010

Leeds United og Ísland

FA-bikar helgi að líða undir lok. Manchester United spilaði í dag við Leeds en maður man eftir baráttu þessara liða í ensku deildinni í kringum 1990 og síðar. Þeir hrifsuðu af okkur deildartitilinn 91-92, síðasta árið sem efsta deildin var kölluð sú fyrsta en árið á eftir fengum við Eric Cantona nánast gefins frá Leedsurum, fyrsta deildardollan í áratugi kom í hús og við Manchester menn höfum ekki horft til baka eftir það. Leeds greyin hins vegar hafa verið í tómu rugli og eru í dag staddir í C-deildinni á Englandi, á toppnum reyndar.

Hvað um það, Leeds vann leikinn í dag. Á Old Trafford, 0:1. Finnst það ógeðslega fúlt.

Þegar svona gerist reynir maður alltaf að sjá ljósu hliðarnar á þessu öllu, svona svo maður missi ekki alveg vitið. Ég fór óhjákvæmilega að tengja þennan Leeds klúbb við Ísland og fann smátengingu í ástandið í dag.
Hvernig fór fyrir Leeds? Stóðu sig bara nokkuð vel og töldust vera alvöru klúbbur. Komust í undanúrslit meistaradeildarinnar 2001 en einhversstaðar á leiðinni misstu þeir fókusinn á stöðu mála. Ofmetnuðust, fjárfestu eins og þeir ættu heiminn og allt sprakk í andlitið á þeim. Eru eins og fyrr segir staddir í C-deildinni og eru í huga margra sem óttarleg grey sem grófu sína eigin gröf í græðgi og vitleysu.

Saga Íslands í hnotskurn eins og staðan er? Kannski. Leeds er alla vega á leiðinni úr C-deildinni upp í B-deildina og komst áfram í FA-bikarnum, og eru að vinna sig upp úr skítnum. Ísland er líklega komið niður í utandeildina í þessari samlíkingu en maður verður að vona að við líka náum að hrista af okkur skítinn.

laugardagur, janúar 02, 2010

Á aðgerðaráætlun 2010

Sá hérna í pistli frá lok ársins í fyrra, eða árinu þaráður öllu heldur að ekki var mikið um áramótaheit fyrir árið 2009. Nema það að minnka að segja: SÆÆDDDLLL...

Það áramótaheit hefur ekki gengið nógu vel ef satt skal segja og sú reynsla ætti því að kenna manni að vera ekkert að setja sér nein áramótaheit.

Áramótaheit eða ekki áramótaheit, spurning hvaða hluti maður ætlar að framkvæma á þessu ári sem er að skríða af stað, bara til að nefna eitthvað:
  • Kaupa mér alvöru myndavél, helst sem fyrst áður en sjónvarpið gefur upp öndina og ég þarf að punga út fyrir flatskjá. Hef reyndar aldrei skilið þetta diss út í flatskjái og tengingu þeirra við 2007 gengið, útrásarvíkinga og myntkörfulánaliðið, eru gömlu túbusjónvörpin ekki einfaldlega horfin af markaðnum?
  • Fara til tannlæknis. Eftir að gamli tannsinn hætti störfum eða lét sig alla vega hverfa þá var farið í það að finna nýja tannsa fyrir fjölskylduna. Ég sat af einhverjum ástæðum eftir þegar pantaður var hóptími hjá þeim nýja og hef ekki enn drattast á svæðið. Kannski best samt að kaupa sér fyrst myndavélina.
  • Poppa upp stofuna með tilheyrandi málingagræjum og almennri endurröðun hluta þar inni.
  • Hafa það helv... gott næsta sumar, skella sér norður og eitthvað í þeim dúr.
  • Það sem gekk svo illa að hætta að nota orðatiltækið SÆÆDDDLLL þá er best bara að halda áfram að nota það.
  • Og svo auðvitað koma sér í form og allt það...
  • Gifta sig? Veit ekki.

föstudagur, janúar 01, 2010

2009 verður 2010

2010 mætt. Mér heyrist að stemming sé almennt sú að menn sjái ekki á eftir 2009. Ég hafði það nú þokkalegt og með tilkomu nýs gríslings þá hlýtur 2009 að teljast nokkuð gott í minningunni.
Ég verð samt að viðurkenna að ég hef sjaldan verði eins óspenntur fyrir fréttaannálnum á gamlársdag eins og í gær. Enda sá ég ekki nema smáglefsu og ranghvolfdi augunum þegar icesave, búsáhaldabyltingin og mæðrastyrksnefnd komu við sögu. Eins og gefur að skilja var mér fljótlega orðið illt í augunum.


Vorum í Æsufellinu eins og hin síðari ár, reyndar með smá undantekningu. Daði Steinn var hálflasinn, með í eyrunum og tilheyrandi og því tók húsfreyjan á heimilinu það að sér að skella sér heim með kappann um tíuleytið til að koma honum í bólið. Við hinir kvöddum 2009 í Fellinu. Staðreynd að eftir 10 ára búsetu í Eyjabakkanum þá var þetta í fyrsta sinn sem það er fulltrúi á svæðinu frá okkar íbúð á áramótunum.
Nýársdagur krumpaður eins og venjulega. Logi Snær stóð sig best í svefni af mannskapnum, skreið framúr rétt fyrir kl 12:00, henti í sig smá morgunmat og tók svo Cartoon Network á þetta. Með miklum tilþrifum.