sunnudagur, desember 25, 2005

Á jólameltunni

Úff, hér situr maður á jóladagskvöldi alveg búinn á því. Aðfangadagurinn gekk nokkuð vel fyrir sig sérstaklega framan af, það var farið með drengina í sund svona aðeins til að hafa þetta ekki eingöngu bið og hangs fram að pakkaupptöku. Svo var þetta þokkalegt en Ísak Máni var orðinn svolítið óþreyjufullur svona um hálffimm leytið en allt hafðist þetta. Logi Snær var ekki að átta sig á þessu, allir eitthvað voða furðulegir í sparifötum og svo var borðað inn í stofu og allt í tómu rugli. Enda fór svo að hann truflaðist algjörlega og vissi ekki hvort hann var að koma eða fara. Vildi ýmist ekki sjá pakkana sína eða var æstur í að opna pakka, alveg óháð því hver átti að fá þá. Ég man nú ekki eftir því að hafa fengið svona marga pakka í lengri tíma en það var nú aðallega vegna þess að Sigga var dugleg að dreifa þessu á fleiri pakka en færri.

Fórum svo upp í Mosó rétt fyrir hádegið í dag og fengum okkur smá hangikjötsmakk áður en við fórum upp á Skaga í, jú, meira hangikjöt! Maður var orðinn frekar þreyttur þegar við komum aftur heim um sex leytið og var snöggur úr skyrtunni og bindinu og í stuttbuxur og bol. Og eins og venjulega er maður búinn að borða of mikið af kjöti og konfekti og drekka of mikið af gosi, maður er nánast lasinn af of mikilli ruslinntöku. En hey, þetta eru nú jólin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svona er þetta ár eftir ár