laugardagur, janúar 14, 2006

Á útsölum í furðulegum erindagjörðum

Rosalega er landinn klikkaður, það hálfa væri mikið meira en nóg. Málið er það að ég þurfti að nálgast bók á bókasafninu núna fyrir síðustu helgi. Fór svo á bókasafnið mitt í Gerðubergi á föstudeginum og gerði mig líklegan til að nálgast þessa bók. Þá kemur í ljós að hún er úti en skiladagurinn er 14. júlí 2005! Konan í afgreiðslunni gerði mér það ljóst að líklega gæti ég eytt mínum tíma í eitthvað annað en að bíða eftir henni. Mér var bent á það að ég gæti t.d. farið annað hvort í Foldasafn eða Kringlusafn og fengið bókina þar að láni. Svo var það á laugardeginum að ég ákveð að kíkja á þetta og ákveð að fara í Kringlusafn. Já, fyrir þá sem ekki vita það þá er bókasafn í Kringlunni. Ég fatta náttúrulega ekki að það eru byrjaðar útsölur en kemst fljótlega að því. Eftir að hafa rúntað um nánast allt bílastæðasvæði Kringlunnar innan um fjölda bíla sem voru í sömu erindagjörðumm og ég, þ.e. að leita að bílastæðum en ég leyfi mér að efast um að margir hafi verið að fara á bókasafnið, þá fann ég loks stæði lengst í burtu frá innganginum að bókasafninu. Þrammaði í gegnum Kringluna innan um stífmálaðar smástelpur, aflitaða FM-hnakka og dauðuppgefin smábörn sem voru dregin áfram af þokkalega pirruðum mæðrum sínum. Matsölustaðirnir voru þvílíkt troðnir og öll borð þéttsetin, fullt af fólki að bíða eftir borðum og stemmingin var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það var talsverð önnur stemming á bókasafninu, eins og kannski við var að búast, ég hélt að ég væri bara kominn á aðra plánetu, lítið af fólki og frekar mikil þögn. Fann bókina mína og lagði af stað sömu leið til baka. 50 metrum frá dyrunum að bókasafninu var ég aftur kominn til helvítis, feitlagin kona með asískan skyndibita á bakka í annari hendinni og með gemsa í hinni var það fyrst sem ég sá. “Já, ég stend hérna á sama stað, ertu búinn að finna borð? Ég sé þig ekki.” Sonur hennar á unglingsaldri sem stóð við hliðina á henni virtist ekki vera skemmt. Talandi um að vera á öðrum plánetum þá hef ég litið furðulega þarna út með Hagskinnu: sögulegar hagtölur um Ísland undir hendinni innan um alla sem voru flestir með útsölupoka meðferðis. Tala nú ekki um að Hagskinna er stærðarinnar skrudda. Misskildi ég þetta eitthvað eða er ég sá eini sem fékk Visa reikning yfir meðallagi núna um mánaðarmótin og eitthvað væntanlegt um þau næstu? Þó var ég mjög rólegur að ég tel en þetta jólastúss kostar jú alltaf eitthvað. Það er búið að búa þannig um friðinn og kærleikann að honum fylgir einhver verðmiði, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Er þetta lið sem rogast með fimm innkaupapoka í hvorri hendi af útsölunum í Kringlunni í byrjun janúar kannski með “útsölusjóð” sem það leggur í allt árið svo það sé klárt í janúar? Vonandi, en ætli þarna séu nú ekki einhverjir sem eru nýbúnir að láta dreifa jólunum á einhverja mánuði og hugsa svo með sér þegar þeir “detta í útsölur”: Þetta reddast...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta reddast alltaf einhvernveginn