sunnudagur, janúar 08, 2006

Snjóbrettafrumburður

Spurning 1: Hvað er þetta?Svar: Þetta er notað snjóbretti


Spurning 2: Hvað er þetta?Svar: Þetta eru tvær heilar fætur eftir snjóbrettanotkun


Jú, það er rétt, undirritaður er búinn að hafa sig út í það að fara á snjóbretti. Í morgun mætti á svæðið hópur af fólki hingað heim og eitthvað af snjóbrettum. Það var alveg ljóst fljótlega í hvað stemmdi, hér var engin undankomuleið. Inga var náttúrulega búin að drösla brettinu frá Danmörku og komin með það alla leið í Eyjabakkann þannig að ég gat ekki sagt að mig langaði ekki að fara með, sem hefði líka verið tóm steypa. Kom reyndar smá bakslag þegar ég heyrði að stefnan var tekinn á hverfishólinn og rifjaði upp í kollinum þær yfirlýsingar sem ég hafði haft um þennan hól, m.a. hér á þessari síðu. En ég gerði mér það ljóst að ég yrði að éta þetta allt ofan í mig, það eina sem ég gat vonað að ég kæmi sterkari út úr því.

Karlinum tókst að fara nokkrar ferðir niður brekkuna, sem var reyndar fulllítil, svona stórslysalaust. Tilburðirnir voru samt frekar daprir en maður var að reyna. Ákvað að læra af skíðamistökunum og eyddi þessum tíma í að reyna að fá smá tilfinningu fyrir hlutunum en ekki bara að láta mig vaða. Myndræn framsetning á þessu öllu saman er hægt að sjá á myndasíðunni.

Ég ætla nú að enda þennan pistil með smá hugleiðingu um börnin í Breiðholti. Þarna var ég að hafa mig að fífli um hádegisbil á sunnudegi, snjóföl yfir öllu og 2-3 stiga hiti. Á meðan við vorum þarna sem var ágætistími þá kom einn krakki með sleðann sinn í brekkuna, einn! Ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bruna niður einhverja gríslinga í minni frumraun þarna. Er þetta Playstation kynslóðin sem er að vaxa úr grasi?

Engin ummæli: