fimmtudagur, janúar 26, 2006

Súgfirskar svaðilfarir

Ég á systir sem á heima á Suðureyri við Súgandafjörð… ég veit, ég veit. Þar lifir hún eins og prinsessan á bauninni held ég stundum. Þarna þekkja allir alla og allir vita allt um alla, eitthvað sem henni finnst nú ekki leiðinlegt. Stundum þarf hún að koma niður úr skýjunum og hringja í elsku bróa í Reykjavík til að redda hinu og þessu. Þessar ferðir eru nú misjafnar eins og þær eru margar. Ein er reyndar í fersku minni. Þá þurfti ég að fara með svona hlandskál eins og eru á spítölunum (þetta heitir eitthvað annað á fagmáli) og skutla því í einhverja blómabúð vestur í bæ. Þar átti ég að afhenda þetta einhverjum aðila í blómabúðinni sem ætlaði að setja blómaskreytingu í þetta... já, hlandskálina. Jóhanna systir ætlaði nefnilega að gefa einhverri vinkonu sinni þetta sem var að útskrifast sem sjúkraliði eða eitthvað þvíumlíkt, sem sagt einhver sjúkraliðahúmor. Mér til mikillar hrellingar var konan sem var að vinna í blómabúðinni ekkert inn í málinu og ég er ekki frá því að hún hafi verið hálfskelkuð þegar ég tók gripinn úr pokanum. Með lagni tókst mér að útskýra þetta fyrir henni áður en hún stökk á símann til að hringja á lögregluna. Það reddaðist nú allt saman en ég hef aldrei stigið fæti inn í þessa blómabúð eftir þetta.

Jóhanna hringdi í mig í gærkvöldi þessi elska og vantaði smá reddingu. Ekkert flókið, bara fara niður á BSÍ í hádeginu og ná í pakka sem var að koma frá Snæfellsnesi og skutla honum í flug áfram til Ísafjarðar. Stelpan var samt eitthvað frekar treg til að gefa upp innihald pakkans. Ég gerði henni þá grein fyrir því að ég myndi bara opna pakkann og kíkja í hann en hún var fljót að gera mér það ljóst að það vildi ég alls ekki gera. Ekki undir neinum kringumstæðum.

Karlinn eyddi hádeginu sínu í þetta snatt. Byrjaði niður á BSÍ til að ná í þennan pakka, það fór ekkert á milli mála að eitthvað var í gangi, það lá a.m.k. í loftinu. Ég hendi pakkanum í framsætið við hliðina á mér og legg af stað í flugfraktina sem er nánast í næsta húsi. Búinn að keyra svona 4 metra þegar ég finn hvernig lyktin magnast upp í bílnum og mér er alveg hætt að lítast á þetta. Bíltúrinn tekur ekki nema svona 3 mínútur, legg bílnum við innganginn og rölti inn með pakkann. Reyni að láta ekki á neinu bera, legg pakkann á vigtina og brosi til afgreiðsludömunnar. Ég gef upp nafn viðtakanda, nafnið mitt og helstu upplýsingar. Daman lætur mig hafa einhvern staðfestingamiða og gefur til kynna um að þar með sé þetta allt klárt. Ég sný við á punktinum og geng hröðum skrefum í átt að dyrunum, vona að ég komist út áður en daman fer að handleika pakkann og kemst að því hvernig er í pottinn búið. Það tekst og ég þakka fyrir að þessari svaðilför sé lokið. Rölti að bílnum og sest inn. Þvílík djö..., ógeðslega fýla tekur á móti mér að það hálfa hefði verið yfirdrifið nóg. Ég ætla bara að vona að þetta sé ekki lengur að fara en svona meðal pizzulykt. Flíspeysan fer í þvott í kvöld.

En það er allavega gott að hákarlinn komst vestur í tæka tíð fyrir þorrablótið, verði ykkur að góðu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hugsaðu þér bara hvað lítið þitt væri tilbreytingalaust og leiðinlegt ef þú ættir ekki svona rosa skemmtilega systur hahahaha. Takk fyrir sendinguna Davíð minn. Pakkinn er úti á palli tjá tengdó. Því eftir lýsingarnar frá þér þá harðneitaði ég að pakkinn kæmi svo mikið sem nálægt mínu húsi :)

Nafnlaus sagði...

Djöfull er að heyra þetta. Er ekki til einhverjar úúúber loftþéttar umbúðir fyrir þetta ógeð??? Maður bara spyr.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir reddið svaka góður hákarl :)