fimmtudagur, janúar 19, 2006

Spurning um að taka á því

Klukkan var 5:55 núna í morgun. Ég vakna við það að konan ýtir við mér því að klukkan mín vakti hana en ekki mig. Ég sprett á fætur, náttúrulega ekki vaknaður og tek tvö skref. Finn þá hvernig stengirnir frá síðustu fótboltaæfingu láta vita af sér og ég íhuga í nokkrar sekúndur hvort ég eigi að fara aftur upp í rúm. Mér finnst það nú eiginlega alveg vonlaust fyrst ég er nú staðinn á fætur og held því áfram. Held út úr húsi og þakka fyrir það að hitastigið er svona þolanlegt. Geispa alla leiðina niður í Hreyfingu og hugsa um það hvað í ósköpunum ég sé að gera.

Ég er sem sagt búinn að dusta rykið af líkamsræktarkortinu. Reyni að telja mér trú um að ég sé ekki einn af þeim sem byrja með látum á nýju ári eftir að hafa lofað sjálfum mér öllu fögru um jól og áramót á meðan ég mokaði í mig Nóa Síríus konfekti. Vitaskuld hefði ég byrjað fyrr en sökum bakmeiðsla þá gat ég það ekki, það er algjör tilviljun að þetta hittist svona á.

Í alvöru.

Hvað um það, spinning tíminn byrjaði kl. 6:30 og því var ekki eftir neinu að bíða. Troð mér þarna inn í klefann og þrátt fyrir þrengslin var ég í góðum gír. Willum var mættur þarna, Sigurbjörn, Kjartan Sturlu, Baldur Aðalsteins og fleiri góðir. Þeir voru greinilega að fara í eitthvað prógram þarna og ég var þarna í góðum fíling að ímynda mér að ég væri að fara á æfingu með þessum strákum sem eru by-the-way meistaraflokkur Vals í fótbolta. Mér var kippt niður á jörðina með það sama þegar þeir fóru úr að ofan og þegar ég fór úr að ofan, þarna voru magavöðvar vs. bumbu með björgunarhringsívafi. Smábitur eftir þessi endalok mín með meistaraflokki Vals rölti ég niður í spinningsalinn. Þar sem að þetta er ekki eitthvað sem ég hef stundað þá var ég svolítið týndur þarna en við mér blasti slatti af hjólum. Náði að velja mér eitt svona aftarlega út á kanti stutt frá útgönguleiðinni svona ef ég myndi örmagnast í miðjum tíma. Kennarinn var þvílíkt yfir sig hress dama með allt á hreinu. Hún tengdi mækinn á sig og setti músikina á fullt. Svo var haldið af stað undir dynjandi takti. Mér leist ekkert á tónlistarvalið til að byrja með en svo komu nú Creed-félagar og tóku mér opnum örmum þannig að það var nú í lagi. Kennarinn var bara eins og hún væri þaulvanur tónlistarmaður með tónleika fyrir fullu húsi: "Í næsta lagi ætlum við að gera þetta" o.s.frv. En mér gekk ákaflega illa að skilja hana þegar hún reyndi að garga hærra en tónlistin. Mér fannst nú alveg taka steininn úr þegar hún kallaði yfir okkur: "Í næsta lagi ætlum við að syngja." Svo byrjaði lagið og vitið menn, engin söng neitt. Ekki ég heldur því ég þekkti ekki textann. Alltaf gargaði hún þetta öðru hvoru út lagið: "Syngja - Syngja." Fattaði svo að líklega var hún að biðja okkur um að þyngja mótstöðuna á hjólinu, það meikaði meiri sens. Ég get nú sagt að þetta tók ágætlega á þótt að ég fylgdi dömunni nú ekki í einu og öllu, ég ætla að komast í vinnuna á morgun. Reyndi samt að nota þennan tíma til að digga þetta en það eru nú takmörk fyrir hversu mikið af upplýsingum maður getur innbyrti svona í fyrsta tíma. Hugtök eins og "80% álag" og "Handstaða þrjú" lærði maður á meðan þessu stóð en var í leiðinni að passa sig að anda rétt, halda magavöðvunum (sem leynast undir bumbunni) inni og vera slakur í öxlunum. Tónlistarvalið var í takti við álagið, þetta fór í hæðstu hæðir og tók svo þvílíkar dýfur. Bubbi vildi meina að fjöllin hafi vakað á meðan Whitney tilkynnti okkur að mundi ávallt elska okkur og Michael "barnaelskari" harðneitaði að hafa nokkuð átt við hana Billy Jean. Tvö hina síðastnefndu voru reyndar með einhverjum brjáluðum bít takti, líklega eitthvað spinning-master-mix. Gellan gargaði á okkur þarna í lokin, vildi fá verki í lærin og lungun hjá okkur með það sama.

Þetta hafðist nú allt saman, karlinn svitnaði vel en spurning hvernig það verður að vakna á morgun...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Djöfull er ég ánægður með þig núna. Taktu mig með í spinning næst þegar þú vaknar kl 05:30 NOOOOTTT

Nafnlaus sagði...

yea right..... mundu bara tilkinningarskylduna þá fyrst skal ég trúa þér