sunnudagur, febrúar 12, 2006

Framkvæmdir ofan á framkvæmdir


Þetta er hausverkur og er búinn að vera það í talsverðan tíma. Þetta er líka algjör viðbjóður og er búinn að vera það í talsverðan tíma. Þetta er kraninn á klósettinu í íbúðinni minni.

Þegar við fluttum inn árið 1999 þá var baðherbergið efst á listanum yfir þá hluti sem þyrfti að taka í gegn. Ekkert svakalega slæmt en svona næst á dagskrá. Við fórum með þetta í milljón hringi. Áttum við að hreinsa allt út úr því eða bara skipta um einhverjar höldur og hanka, mála upp á nýtt og kannski mála innréttinguna? Fyrst ætluðum við að taka það allt í gegn en ákváðum síðan bara fiffa eitthvað upp á það fyrir lítinn pening. Breyttum aftur um skoðun og ákváðum að moka öllu út, en skiptum síðan enn um skoðun og vildum gera einhverjar rólegar breytingar. Það fór svo að við slettum málingu á veggina og skiptum út handklæða- og klósettrúllustönginni og eitthvað af því dóti, ætli sé ekki komið eitthvað á annað ár síðan.

Við erum svo komin á það að nú þurfi að taka eitthvað róttækt í gegn þarna. Við erum að tala um að taka allt draslið og henda því út, klósettið, baðkarið, flísarnar, skápana, út með það allt. Karlinn stormaði niður í Office 1 fyrir einhverjum mánuðum og gekk út með Living etc., Ideal Home og október blaðið af Hús og híbýli þar sem tekin voru fyrir 25 íslensk baðherbergi. Þetta er auðvitað bilun að fara að standa í þessu og hrikalega óspennandi tilhugsun en eitthvað sem þarf að gera, því kamaraherbergið er orðið frekar dapurt.

Það mætti halda að ég væri eitthvað rosalega spenntur fyrir iðnaðarmönnum þessa dagana. Fyrst var verið að skipta um hurðir á íbúðunum hérna í stigagangnum og þar sem þetta pikkar er víst titlaður gjaldkeri stigagangsins þá lenti þetta á honum. Fyrst þurfti að fá einhvern til að smíða hurðirnar og svo þurfti að redda einhverjum öðrum til að setja þær í. Þetta var pakki sem tók einhverjar vikur með tilheyrandi nöldursímtölum. En karlinn var ekki hættur eins og æstir lesendur þessarar síðu hafa tekið eftir. Þá var næsti iðnaðarmaður kallaður til og rafmagnið tekið í gegn. Það gekk reyndar furðugreiðlega fyrir sig, miðað við þetta bullandi góðæri sem virðist vera í gangi með tilheyrandi iðnaðarmannaþörf landsmanna. Ég er reyndar að gæla við þá hugmynd um að þurfa ekki að kalla til löglærðan iðnaðarmann þegar ég tek þá ákvörðun um að ganga skrefið til fulls í baðherbergismálum. Ætla að treysta á hjálp nánustu fjölskyldumeðlima ásamt því að konan virðist alltaf æsast svo um munar þegar naglbítar, kíttispaðar, járnsagir og fleira í þeim dúr nálgast hana.

En þar sem ég hef ekki enn hafið framleiðslu á peningum þá er lítið annað að gera en að bíða spenntur eftir reikningnum frá Gúnda rafvirkja og fara svo að reikna út hvernig hægt sé að leysa þetta klósettmál, kostnaðarlega séð.

Þangað til... góðar stundir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

www.sturta.is og ekkert annað....