miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Fyrirmyndafaðirinn?

Dagur tvö að kveldi kominn. Dagur tvö? Já, dagur tvö sem einstæður faðir með tvo drengi í Breiðholtinu. Konan fór í vinnuferð til Svíþjóðar í gærmorgun og er ekki væntanleg fyrr en síðdegis á sunnudaginn. Get ekki neitað því að þetta er smá púsl. Tengdó er reyndar búin að hjálpa mér með drengina eftir skóla og leikskóla enda ekki annað hægt þar sem það á nú að heita að ég sé í fullri vinnu út í bæ. Það eru í raun ótrúleg forréttindi að Sigga sé að vinna í skólanum sem Ísak Máni er í og það að skólinn sé við hliðina á leikskólanum sem Logi Snær er í. Ég hef stundum spáð í það hvernig það væri ef Sigga ynni í verslun á Laugaveginum eða á skrifstofu í vesturbænum. Held að það væri ekki hægt, ekki sjéns.

Ég tel mig vera búinn að leggja mig allan fram svo ég klúðri nú ekki neinu, passa að gleyma ekki nestinu hans Ísaks Mána, muna eftir aukavettlingunum hans Loga o.s.frv. Ég var nú líka búinn að undirbúa mig aðeins fyrir þetta. Ég sá ekki fram á að nenna að dröslast í Bónus með bæði börnin þannig að ég fyllti ísskápinn áður en Sigga fór út af tilbúnum kjötbollum, lambanöggum o.s.frv. Nennti ekki að missa þetta í eitthvað pizzu- eða KFC rugl á fyrsta degi. Enda slógu kjötbollurnar í brúnni rjómasósu bara í gegn í gær, svo vel að það var hægt að borða afgangana af því í kvöld. Snilld.

Þetta er nú samt ekki nema hálf sagan. Það var tekin eindregin ákvörðun hérna á heimilinu að taka rafmagnið í gegn, eða láta einhvern taka það í gegn öllu heldur. Þetta hefur verið í frekar slæmum málum svo það var ekkert annað að gera en að jarðtengja allt dótið og skipta um rofa og þessháttar. Ég fékk einhvern rafvirkja til að kíkja á þetta og hann féllst á að gera þetta, en hvenær hann kæmist í þetta gat hann ekki sagt til um. Svo í morgun, klukkan 8:28, þegar karlinn var rétt sestur niður með kaffið í vinnunni hringir gemsinn. Það er rafvirkinn, sem ég ætla að kalla Gúnda: “Blessaður, ég er að leggja af stað, verð kominn eftir svona 20 mínútur”. Í einfeldni minni hafði ég búist við að fá kannski svona sólarhringsfyrirvara, hálfan kannski, en ekki bara 20 mínútur. Ekki misskilja mig, frábært að hann gat komið sér í þetta en kommon. Ég gat lítið annað gert en að skellt restinni af kaffinu í andlitið á mér og drullað mér heim. Mér skilst að miðað við iðnaðarmannaástandið núna þá segir þú ekki við iðnaðarmenn: “Nei, ég er svolítið upptekinn, geturðu komið á morgun”. Ég bruna heim og hleypi Gúnda inn. Hann ætlar að græja þetta á tveimur dögum.

Konan sleppur við þetta allt, þegar ég kom heim eftir vinnu þá var íbúðin í rúst, eldhúsborðið eins og vinnuborð á raftækjaverkstæði, afklipptir vírastubbar út um alla íbúð og öll húsgögnin á öðrum stöðum en venjulega. Það er vonandi að Sigga verði ánægð með þetta, þetta ætti að koma henni á óvart. Nema ferðalangarnir séu að chilla á sænskum netkaffihúsum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

va, thad er aldeilis thu hefur nog ad gera, en vonandi verdur ibudin ekki enntha i rust thegar eg kem. Nett erfitt ad halda litlum fingrum fra virastubbunum geri eg rad fyrir. Nu snakker vi dansk, jeg kan ikke snakke svenska.

Nafnlaus sagði...

HAHAHA greinilega stuð á heimilinu í Eyjabakkanum

Nafnlaus sagði...

Það er gott að það er nóg að gera, leiðist allavega ekki á meðan :-)

Nafnlaus sagði...

Það er nokkuð ljóst af svarinu frá sumum að það kemur ekkert annað til greina hjá þér en að vera búinn að þrífa hátt og lágt þegar Sigríður kemur heim