föstudagur, mars 03, 2006

Öfgafullir andskotar

Þetta er ekki pistill um sykur. Þetta er pistill um öfga. Ég þoli ekki öfga. Þótt þetta sé ekki pistill um sykur, heldur öfga, þá er kveikjan af þessum pistli sykur, eða öllu heldur umræða um sykur. Þrátt fyrir að ég vinni hjá stærsta sykurinnflytjanda landsins þá tel ég mig ekki vera neinn sérstakan talsmann sykurs. Enda snýst þetta ekki um sykur, heldur öfga.

Á einni sjónvarpsstöðinni hérna á skerinu er nýbyrjaður einhver heilsuþáttur þar sem teknir eru einhverjir einstaklingar sem buðu sig fram og vildu breyta hjá sér matarræðinu og vona að það tryggi þeim betri líðan. Hið besta mál allt saman. Sá fyrsta þáttinn og þvílíkir öfgar. Sykur var settur í sama flokk og eiturlyf. Er ekki í lagi hjá þessu liði, ég bara spyr? Enda var einn virtasti næringarfræðingurinn á Íslandi ekki lengi að skjóta þetta lið í kaf, á vinsamlegum nótum þó. Greinina má sjá hér.

Ég trúi því að allt sé gott í hófi. Ef þú hreyfir þig af einhverju viti og borðar fjölbreyttan mat þá líður þér betur en ef þú gerir það ekki. Ég trúi því ekki að maður eigi að henda út sykri, hvítu hveiti, morgunkorni o.s.frv. og éta í staðinn ekki nema bygg, rúsínur í vatnsbaði og gufusoðið grænmeti. Kannski öfgafull einföldun en samt... Auðvitað er algjör steypa að 13 ára unglingur komist ekki í gegnum daginn án þess að innbyrða einn lítra af gosi, súkkulaðisnúð og bland í poka fyrir 200 kall. Hófið er lykillinn að þessu.

Það fer bara ótrúlega í mínar fínustu þegar menn taka upp á einhverju, hvort sem það tengist heilsu eða einhverju öðru og verða svo helteknir af því að ekkert annað kemst að. Tala nú ekki um þegar þessir sömu menn eru gjörsamlega óþreytandi að boða út fagnaðarerindið í sínum öfgum.

Kannski er ég bara svona öfgafullur í minni andstöðu gegn öfgum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þér, allt er gott í hófi og með reglulegri hreyfingu má maður borða hvað sem mann langar í...

Nafnlaus sagði...

Chill maður rólegur