sunnudagur, febrúar 11, 2007

28. september 2004

Ísak Máni er búinn að vera veikur nánast alla vikuna, hann fór í skólann á mánudeginum en hefur síðan verið heima. Þessu hefur vitanlega fylgt tóm steypa, mikið sjónvarpsgláp og tölvuleikjaástundun en eitthvað verða menn að gera til að stytta sér daginn. Svefnvenjurnar fara líka út um gluggann. Við feðgarnir tókum tvö fótboltakvöld í röð í þessari viku en það voru vináttulandsleikir í gangi. Það var tekið popp og teppið á þetta, reynt að hafa þokkalega kosí. Reyndar voru þetta leiðindaleikir, eina merkilega við þetta að Ben Foster að spila sinn fyrsta leik í enskri treyju en þá er það líka upptalið.

Mér fannst gaman af þessu því Ísak Máni hefur ekki verið mjög æstur í að horfa á fótbolta í einhvern tíma. Ég fór því að minnast á við hann hvort hann myndi eftir ákveðnu atriði sem markaði visst upphaf að áhuga hans á að horfa á fótbolta sem, eins og fyrr segir, hefur ekki örlað á í einhvern tíma. Mér til mikillar furðu þá mundi hann ekkert eftir þessu atviki því mér finnst svo stutt síðan að við töluðum um þetta en líklega er það lengra en mig minnir og þar sem hann er nú bara 7 ára þá er þetta kannski ekki skrítið. Mér fannst því við hæfi að koma þessu á prent áður en ég myndi gleyma þessu líka.

Þann 28. september árið 2004 var þriðjudagur og Ísak Máni var á fótboltaæfingu. Ég var á svæðinu og dreif hann heim því ég ætlaði að sjá Manchester United spila við Fenerbahce frá Tyrklandi í Meistaradeildinni sem var sýndur beint á Sýn. Ég man bara að við komum inn og fórum beint inn í stofu og kveiktum á sjónvarpinu áður en við gerðum nokkuð annað. Þrátt fyrir að lítið var búið af leiknum þá var staðan annað hvort 1:0 eða 2:0, man það ekki alveg, og í hönd fór magnaður leikur. 6:2 fyrir okkar mönnum og Wayne nokkur Rooney smellti þrennu í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Magnað.



Eftir þetta var Ísak Máni spenntur fyrir þessu öllu og horfði á talsvert af fótbolta þarna rúmlega 5 ára gamall. Drakk m.a. í sig eitthvað af þeim spólum sem ég átti, t.d. af þrennutímabili Man Utd frá 1999 og stundum tók ég upp fyrir hann leiki sem fóru fram eftir að hann var farinn að sofa sem hann horfði síðan á síðar.

Jæja, að því gefnu að internetið hrynji ekki þá er ég búinn að gera mitt til að þessi atburður gleymist ekki. Spurning um að prenta þetta út.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Prenta út og ramma inn ASAP

Á svo ekkert að gera svona pistil um sigurgöngu Inter eins og þú gerðir um þessa ægilegu 11 leikja sigurgöngu Roma??? Maður er nú bara hálf móðgaður... HEHEHEHEHEHEHE

Nafnlaus sagði...

Pistillinn er í vinnslu en verður ekki birtur fyrr en ég veit hversu margir leikirnir verða. Spurning hvort hann komi á þessu ári eða kannski bara næsta...

Nafnlaus sagði...

Mér leiðist ALLT um fótbolta *grenj*